145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[11:21]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstvirtur forseti. Ég kem til að taka undir það sem sagt hefur verið um hvort ekki sé hægt að fá hæstv. utanríkisráðherra til að átta sig á hvers konar deilumál er hér á ferðinni og óeining í þinginu um það og þingmenn taki sig nú til og nái sátt um það eins og gerst hefur nokkrum sinnum upp á síðkastið og er þinginu til mikils sóma. Ég tek sem dæmi orkuáætlunina sem var mikill titringur út af. Hún var tekin til nefndar og unnin þannig að um hana varð þverpólitísk sátt. Málið var lagfært og nýlegt dæmi er um náttúruverndarmálið. Ég held að það sé og eigi að vera tákn um breytta tíma Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu að þegar okkur ofbýður hér, eins og hefur komið fram í þessum miklu deilum, þá verði þingið að sýna ráðherrunum að valdið er hjá Alþingi og taka málið til skoðunar.

Hér hefur til dæmis komið fram nýleg umsögn ASÍ þar sem bent er á rangtúlkanir í frumvarpi ráðherrans og ráðherra verður að svara fyrir það.