145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[11:22]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Staðreyndin er sú að hæstv. utanríkisráðherra þorir ekki að standa fyrir máli sínu hér. Hann hefur ekki kjark til að reyna að bera fram röksemdir fyrir málinu vegna þess að hann hefur engar. Þegar hann kallaði fyrir sig starfsmenn ÞSSÍ og sagði þeim frá þessu spurðu þeir skelfingu lostnir: Hvers vegna? Hvaða röksemdir eru fyrir því að leggja niður fyrirmyndarstofnun?

Það var upplýst á fundi utanríkismálanefndar að hið auðmjúka svar hæstv. ráðherra hefði verið: Ég þarf engar röksemdir.

Herra forseti. Það getur vel verið að hæstv. forseta finnist það sæmandi fyrir virðingu þingsins að hæstv. utanríkisráðherra sé á fundi og flakki meðal framsóknarfélaga vítt um land án þess að sinna sínum þinglegu skyldum. Ég vek hins vegar athygli hæstv. forseta á því að hæstv. utanríkisráðherra hefur ekki fjarvist. Ef hann hefur ekki skráða fjarvist á hann að vera í vinnunni sinni. Hann á ekki að vera að svíkjast um, hann á að koma hingað og standa fyrir máli sínu. Fram hafa komið ásakanir um að málið byggist á pólitískum hrossakaupum. (Forseti hringir.) Því getur enginn svarað nema hann og hann á að standa fyrir því máli og upplýsa hvort það sé rétt sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði hér í gær.