145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[11:25]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég furða mig á málflutningi hv. þm. Ásmundar Einars Daðasonar um að málið hafi verið afgreitt út úr ríkisstjórn, út úr stjórnarflokkum og eitthvað, en við vitum ekkert hvað fór fram á þeim fundum. Við heyrum ekkert í því ágæta fólki sem er búið að afgreiða þetta út úr ríkisstjórn og afgreiða þetta út úr stjórnarflokkum. Svo bara situr það hér og segir ekki bofs og gerir lítið úr því að við höfum áhyggjur af því að verið sé að leggja niður eina af bestu stofnunum landsins sem vinnur kannski eitt þarfasta verk sem við almennt vinnum hér á landi fyrir fátækar þjóðir.

Það er aldeilis skemmtileg framtíðarsýn ef það á bara að afgreiða eitthvað í ríkisstjórn og svo á að afgreiða eitthvað út úr stjórnarflokkum og menn ætla aldrei að segja skoðun sína í þingsal. (Forseti hringir.) Hvers konar eiginlega lýðræði er það og umræðuhefð sem hinn ungi þingmaður Ásmundur Einar Daðason talar fyrir hér?