145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[11:29]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég skil ekki þennan mikla æsing sem er í stjórnarandstöðunni. Það sem ég gerði áðan var að koma hér upp vegna þess meðal annars að þingflokksformaður Samfylkingarinnar hafði komið hingað upp og látið að því liggja að ekki væri pólitískur stuðningur við þetta mál og það væri einungis einn þingmaður sem styddi það.

Ég var að benda á það að til þess að mál komist í 2. umr. þingsins þurfa þau að hafa farið í gegnum ríkisstjórn, þau þurfa að hafa farið í gegnum báða stjórnarflokka. Á síðasta þingi var mælt fyrir málinu og það fór til utanríkismálanefndar. (Gripið fram í.) Það var afgreitt úr utanríkismálanefnd á síðasta þingi og aftur núna, með meirihlutastuðningi úr utanríkismálanefnd, þar sem nefndarálit liggja fyrir sem rökstyðja málið í bæði skiptin, bæði á síðasta þingi og á þessu þingi.

Virðulegi forseti. Þegar svona er komið, og um mál eru skiptar skoðanir, þá er það lýðræðislegt að greidd séu atkvæði um þau. Þá kemur í ljós hvort meiri hluti er (Forseti hringir.) fyrir málinu eða ekki. Þá kemur í ljós hvort fullyrðing þingflokksformanns Samfylkingar, um að þetta mál njóti ekki stuðnings, á við rök að styðjast.

Við hvað eru menn hræddir? Af hverju eru menn í andsvörum við sjálfa sig í þessu máli?