145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[11:31]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram að hæstv. utanríkisráðherra skuli taka framsóknarfundi vestur á fjörðum og framsóknarfund á Sauðárkróki í kvöld fram yfir það að standa hér fyrir máli sínu og rökstyðja og eiga samtal við okkur og svara strax þeim spurningum sem settar eru fram. Ráðherrann var hér við 1. umr. en tók ekkert þátt í umræðunni, kom einu sinni upp í andsvar og búið. (Gripið fram í.) Málið hefur fengið ríkisstjórnarmeðferð, segir hv. þm. Ásmundur Einar Daðason. Þannig var það líka með samgönguáætlunina, en svo var gerð breyting og í þingliðinu var ekki samstaða um að samþykkja breytingartillögurnar með auknum fjárútlátum í samgönguáætlun sem er ekki neitt neitt. Hvað gerðist með það mál? Það dagaði uppi.

Hér í dag í óundirbúnum fyrirspurnum voru tveir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins. Hvar voru ráðherrar Framsóknarflokksins? Eru fleiri fundir? Eru þeir allir einhvers staðar út um land og sinna ekki þinglegum skyldum?

Virðulegi forseti. Sá sem hér talar hefði átt að vera á stórri og mikilli samgönguráðstefnu á Akureyri (Forseti hringir.) í sínu kjördæmi Mér sýnist ég verða að sleppa þeirri ráðstefnu og sinna mínum þinglegu skyldum vegna þess (Forseti hringir.) að hér er á mál á dagskrá á eftir þar sem ég flyt breytingartillögu úr minni (Forseti hringir.) nefnd. Það væri betra að framsóknarmenn ynnu á þennan hátt.