145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[11:37]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég ítreka þá beiðni mína, og fleiri sem hafa talað undir þessum lið á undan mér, að við tökum þetta mál út af dagskrá. Það er greinilegt að mörgum spurningum er ósvarað. Það er ekki ljóst hvort hreinlega sé um misskilning að ræða og að málið sé byggt á það veikum stoðum að það muni ekki halda til framtíðar. Þannig að ég ítreka þá tillögu sem hér hefur komið fram að við tökum málið út af dagskrá.

Eftir ræðu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur hér áðan má kannski íhuga hvort verið geti að viðhorf hv. þingmanna sem styðja hæstv. ríkisstjórn séu kannski með þeim hætti að þingstörfin muni ekki ganga vel á meðan slíkt háttalag er fram borið úr þessum ræðustól.