145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[11:40]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil taka undir það með síðasta ræðumanni að það er gríðarlega mikilvægt að hæstv. ráðherra komi hér og svari þeim spurningum sem út af standa. Ég hef áður bent á það, og vil ítreka það, að mér finnst líka mjög mikilvægt að ráðherrann sé viðstaddur 2. umr. vegna þess að málið heyrir beint undir hann og hans ráðuneyti. Tillagan er sú að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun og færa allan málaflokkinn inn í ráðuneyti ráðherrans. Þar af leiðandi finnst mér alveg kristaltært að ráðherrann eigi að vera hér og taka þátt í umræðunni.

Vegna ummæla hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur áðan um að minni hlutinn eigi að ráða, að það sé hið nýja lýðræði, þá gengur nú lýðræðið kannski ekki út á það að minni hlutinn ráði, en að minni hlutinn hafi aðkomu að (Forseti hringir.) málum og hafi sitt að segja.

Herra forseti. Við sem Alþingi Íslendinga getum gert (Forseti hringir.) svo miklu, miklu betur en við erum að gera og sýna í þessu máli. En við þurfum öll að sameinast um að gera betur.