145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

viðvera utanríkisráðherra við umræðu um ÞSSÍ.

[11:41]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við eigum ágætisdæmi frá síðustu kosningum um það að þingið grípi til sinna ráða þegar ráðherra kemur með vanbúin, illa undirbúin og óskynsamleg mál til þingsins. Við eigum auðvitað dæmið um náttúrupassann sem lenti bara úti í skurði sem betur fer af því að það var afspyrnuvont mál. En við eigum líka dæmi um mál þar sem hæstv. þáverandi ráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra á þeim tíma, kom fram með fordæmalaust mál sem snerist um það að eyðileggja fjögurra ára vinnu að gerð náttúruverndarlaga. Því var afstýrt. Hverjir afstýrðu því? Það var Alþingi Íslendinga sem tók af skarið og leiddi málið til lykta undir þverpólitískum fána og í því skyni að ná góðri efnislegri niðurstöðu í málinu. Við erum í sambærilegri stöðu núna. Hér kemur ráðherra með vont mál. Það er enginn hér sem er innblásinn með málinu. Alþingi á að taka til sinna ráða ef ráðherrann ætlar að hunsa málið. Hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir, (Forseti hringir.) formaður nefndarinnar, á að sýna hvað í henni býr, taka málið til sín og sýna hin nýju stjórnmál sem hún hefur ítrekað talað fyrir, (Forseti hringir.) sem snýst um að kalla allar raddir (Forseti hringir.) að borðinu í svo viðkvæmum málaflokki sem hér er undir.