145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[11:43]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég hlýt að byrja á að lýsa óánægju minni með að hæstv. ráðherra utanríkismála, Gunnar Bragi Sveinsson, sé ekki viðstaddur. Það hefur komið fram að þetta mál er sérstakt hugarfóstur hans og embættismanna í utanríkisráðuneytinu og það er ekki hægt að ætlast til að hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir, formaður utanríkismálanefndar, svari fyrir þau álitamál sem hér koma upp. Hún var ekki í utanríkismálanefnd á síðasta kjörtímabili þegar þetta mál var rætt og þegar farið var yfir þær umsagnir sem sendar voru inn. Það er alls ekki hægt að ætlast til að hún sé í því hlutverki enda hefur hún ekki verið það, hún hefur verið hérna á sveimi stundum og stundum ekki en hún hefur ekki séð neina ástæðu til að taka til máls í þessu máli fremur en aðrir stjórnarliðar.

Virðulegi forseti. Það er næstum ógnvekjandi að heyra hvernig stjórnarliðar tala hér um að mál hafi verið afgreidd út úr ríkisstjórn og út úr stjórnarflokkum en þeir koma samt sem áður ekki til að skýra fyrir okkur hinum sem sjáum ekki hvert ljósið er í þessu máli, ef svo má að orði komist, hvert ljósið er og hver sé ástæðan fyrir málinu og hvað mun fara betur í því þróunarsamvinnustarfi sem við leggjum af mörkum og leggjum lið ef þessi stofnun, þar sem fólkið er sem kann þar best til verka, verður lögð niður.

Þetta sýnir í raun líka valdhroka sem hefur komið fram hjá þessari ríkisstjórn fyrr og farið hefur verið yfir hér. Við þurfum ekkert að rifja upp hvernig ríkisstjórnin hefur komið fram í Evrópumálunum þar sem kjörnir fulltrúar og ráðherrar hafa beinlínis gengið á bak þess sem þeir sögðu í kosningabaráttu og talið að þeir þurfi ekki að spyrja kóng eða prest. Þetta er mjög alvarlegt. Það er alvarlegt mál að ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra í þessu tilfelli leyfi sér að koma fram við þingið eins og raun ber vitni.

Ég ætla í máli mínu að styðjast að mestu leyti við nefndarálit minni hlutans, þar kemur fram flest það sem máli skiptir í þessu máli, og reyna að gera grein fyrir skoðun minni. Fyrirkomulag þróunarsamvinnu Íslands er þannig að Þróunarsamvinnustofnun sem nú á að leggja niður fer með svokallaða tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands við samstarfsríki og fer með um 40% af framlagi Íslands til málaflokksins. Þar á móti eru 60% framlaganna á hendi utanríkisráðuneytisins. Það er sú vinna sem fer í gegnum alþjóðastofnanir. Nú hefur það komið fram að það fyrsta sem virðist henda nýja utanríkisráðherra þegar þeir koma inn í ráðuneytið er að það setjist að þeim embættismenn sem telja hið mesta þjóðráð og það brýnasta sem þarf gera í utanríkismálum þjóðarinnar að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun og flytja öll verkefnin inn í utanríkisráðuneytið. Hingað til hafa allir utanríkisráðherrar staðist þessa ásókn embættismannanna. Nú gerist það ekki og þess vegna er þetta frumvarp lagt fram. Ég leyfi mér stundum að ímynda mér að hæstv. utanríkisráðherra sem sýnir það stundum að hann er maður skynseminnar hafi bara verið kominn of langt út í fenið þegar hann áttaði sig á hvað þetta var vont mál og þess vegna ekki gefist ráðrúm til að snúa af þessari braut.

Hæstv. utanríkisráðherra fékk hinn ágætasta mann, Þóri Guðmundsson, til að gera úttekt á þessum málum. Í áfangaskýrslu sem Þórir skrifaði velti hann fyrir sér þremur kostum varðandi framtíðarskipulag þróunarsamvinnu. Í fyrsta lagi að Þróunarsamvinnustofnun rynni inn í utanríkisráðuneytið og yrði hluti af þróunarsamvinnuskrifstofu. Í öðru lagi að skipulagið yrði óbreytt en ákveðinn tilflutningur yrði á milli Þróunarsamvinnustofnunar og utanríkisráðuneytisins. Í þriðja lagi að Þróunarsamvinnustofnun tæki við helstu hlutverkum þróunarsamvinnuskrifstofu og þau mál sem rekin eru í alþjóðlegri samvinnu í ráðuneytinu flyttust líka yfir í Þróunarsamvinnustofnun. Það voru þessi þrjú atriði sem Þórir velti fyrir sér. Síðan lagði hann eiginlega til að sú leið yrði farin að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun.

Ég vil geta þess að Þórir Guðmundsson nefndi það sérstaklega í skýrslu sinni að hann væri starfsmaður Rauða kross Íslands og það er einmitt Rauði krossinn sem kemur mikið að þessari alþjóðasamvinnu. Þá skildi ég það þannig að hann væri að segja að það væri erfitt fyrir hann að taka niður þau gleraugu. Honum og Rauða krossinum hafi fundist ganga vel að vera í samvinnu við utanríkisráðuneytið og þess vegna segi hann: Af hverju skyldi ekki allt vera þar? En fyrir utanríkismálanefnd hafa komið fleiri sjónarmið. Þau hafa komið fram hjá helstu sérfræðingum í þessum efnum, m.a. hjá prófessor Jónínu Einarsdóttur sem er einn helsti fræðimaður landsins á þessu sviði. Hún er ómyrk í máli í umsögn sem hún skrifar fyrir félagsvísindasvið Háskóla Íslands. Hún leggur til að Þróunarsamvinnustofnun verði efld en ekki lögð niður. Í umfjöllun nefndarinnar í vetur er Félagsvísindastofnun ekki kölluð til til að fara aftur yfir þessa skoðun sína og það er náttúrulega alveg stórfurðulegt. Það er líka furðulegt að í greinargerðinni með frumvarpinu er eina röksemdin fyrir því að færa öll verkefni í utanríkisráðuneytið sú að þar hafi verið stofnuð sérstök þróunarsamvinnuskrifstofa, sem var einhver skipulagsbreyting í utanríkisráðuneytinu. Það er allt í einu orðinn grundvöllur þess að leggja niður þessa sérfræðistofnun sem fær alls staðar mjög góð ummæli. Hún fær góð ummæli hjá DAC, sem er þróunarsamvinnunefnd OECD, hjá Ríkisendurskoðun er hún talin með þeim stofnunum landsins sem standi sig best í að fara með fjármuni. Samt sem áður segir utanríkisráðherrann: Við ætlum að fella þessa stofnun niður. DAC segir að það sé rétt að stjórnvöld leggi mat á heildarskipulag og fyrirkomulag þróunarsamvinnu út frá því hvernig hámarksárangur og skilvirkni séu tryggð. Íslendingar eigi að taka ákvörðun um það hvað henti þeim best. Þá er það allt í einu orðin röksemd í málinu, það eigi að breyta öllu af því að lagt er til að litið verði á málið í heild. Það hafði líka verið ákveðið að fram færi svokölluð jafningjaúttekt á Þróunarsamvinnustofnun árið 2016 og DAC ætlaði að standa fyrir því. En þar sem allar líkur eru á að Þróunarsamvinnustofnunin komi mjög vel út úr þeirri jafningjaúttekt þarf að flýta sér að leggja hana niður áður en af úttektinni verður.

Í greinargerðinni með frumvarpinu er klifað á hugtökum eins og skilvirkni, hagkvæmni, samhæfingu og samlegðaráhrifum og fjallað um að draga eigi úr óhagræði og tvíverknaði í rekstri. Þegar betur er að gáð á ekki að spara neitt, ekki fækka starfsfólki, og aðspurður segir ráðherrann að Þróunarsamvinnustofnun sé mjög skilvirk. Eins og ég sagði áðan kemur það líka fram í úttekt Ríkisendurskoðunar á stofnuninni. Þetta mál er allt saman með algerum endemum.

Það fara gífurlegir fjármunir í þróunarverkefni, þótt þeir ættu að vera meiri og framlögin hafi verið lækkuð, og það hvarflar að manni að embættismennirnir í utanríkisráðuneytinu vilji ná öllum þessum peningum inn í ráðuneytið vegna þess að þá sé hugsanlega hægt að færa meira á milli hinna ýmsu verkefna sem ráðuneytið sér um. Við vitum það líka sem hér erum að utanríkisráðuneytið hefur sætt mjög miklum niðurskurði á þessu kjörtímabili, sérstaklega fyrstu tvö árin en þá virtist eins og utanríkisráðuneytið og hæstv. utanríkisráðherra væru lögð í einelti, sérstaklega af formanni fjárlaganefndar. Þar var skorið niður meira en annars staðar enda finnst manni stundum eins og sumir framsóknarmenn séu hræddir við umheiminn.

Það er annað sem hætta er á í þessum efnum þegar málið er fært frá sérfræðingum í Þróunarsamvinnustofnun yfir í utanríkisráðuneytið, en það er að reynt verði að fara aftur til þess tíma þegar lönd reyndu með þróunarverkefnum sínum að troða sjálfum sér að, litu á þróunarverkefni sem aðferð til að troða sér og fyrirtækjum í sínum löndum að. Þetta þótti sniðugt. Allir sem kynna sér þessi mál og þekkja eitthvað til þeirra kalla þetta núna frumstæð vinnubrögð. Það er hætta á að þetta gerist þegar öll þessi verkefni eru komin í sama pott sem yrði þá utanríkisráðuneytið. Það er betra að utanríkisráðuneytið móti stefnuna í samvinnu við Alþingi, móti það hvert við ætlum að fara í þessum efnum og sérfræðistofnun framfylgi síðan þeirri stefnu. Það er miklu skýrari og nútímalegri aðferð en það sem mælt er fyrir hér.

Í lok máls míns vil ég aðeins koma inn á það sem ég ræddi í 1. umr. um þetta efni, sem er að þessu frumvarpi fylgir að stofna eigi sérstaka þróunarsamvinnunefnd. Ráðherra á að skipa fulltrúa í hana og varamenn til fjögurra ára. Ég ætla að vekja athygli á því sem ég hef gert hér áður að í þessari nefnd eiga meðal annars að vera fimm fulltrúar úr hópi alþingismanna. Nú er það svo að sex þingflokkar eru á Alþingi núna. Þeir gætu orðið fleiri. Á það að vera þannig að í þessari þróunarsamvinnunefnd — maður hefði haldið að þróunarsamvinna almennt væri dæmi um eitthvað sem allir flokkar ættu að hafa aðkomu að og geta unnið saman að — eigi einn þingflokkur, miðað við stöðuna í dag, ekki að eiga fulltrúa þar? Á að kjósa í þessa fimm manna þróunarsamvinnunefnd eins og er t.d. kosið í bankaráð þar sem fulltrúar flokkanna og alþingismenn endurspegla meiri hluta á Alþingi? Mér finnst þetta algerlega óskiljanlegt. Hv. þm. Ögmundur Jónasson stakk upp á því fyrr við þessa umræðu að nóg væri að endurskoða bara yfirstjórnina á þessari þróunarsamvinnu allri saman, að við létum það nægja að sinni. Ekki að leggja niður eina af bestu stofnunum landsins.