145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[12:13]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Mig langar að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið í síðasta andsvari varðandi DAC. Eitt af því sem er notað sem rökstuðningur í greinargerðinni með frumvarpinu er að bent hafi verið á það að fyrirkomulagið á Íslandi sé frábrugðið því sem er víðast hvar annars staðar, en það hefur reyndar verið hrakið m.a. af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og raunar í minnihlutaáliti hv. utanríkismálanefndar. Í þessari greinargerð er tekið fram að Ísland þurfi að taka ákvörðun um hvaða fyrirkomulag mundi henta best hér með tilliti til stefnu landsins í málaflokknum og skilvirkni og árangurs af starfinu.

Það kom hins vegar fram fyrir nefndinni að DAC mundi aldrei fara að segja að það væri eitthvað sem við ættum að gera eða ættum ekki að gera, en þeir bentu á ýmislegt sem við ættum að skoða og raunar koma þessar ábendingar frá DAC í kjölfar þess að hér hafði verið tekin ákvörðun um að hækka verulega framlög til þróunaraðstoðar, sem nú hefur verið fallið frá. En er þingmaðurinn mér sammála í því að það misgengi sem er á milli upplýsinga í greinargerð, þess sem kemur fram fyrir nefndinni, hvernig DAC lítur á málin, sé eitt af þeim atriðum sem við þurfum að fá hæstv. ráðherra til að koma til umræðunnar og ræða við okkur um, um rök hans, að hann eigi orðastað við okkur um þetta? Mér finnst það alla vega skipta máli.