145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

hugmyndir um einkavæðingu Landsbankans.

[13:38]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Hér er sett nokkuð stórt mál á dagskrá og við höfum takmarkaðan tíma til þess að ræða það og þau mörgu álitamál sem vissulega eru til staðar við breytingar á eignarhaldi á fjármálafyrirtækjum, ekki síst í ljósi þeirra hræringa sem eru á fjármálamarkaði um þessar mundir. Maður verður að búa við þann tíma sem hér er úthlutaður. Ég ætla ekki að elta ólar við allt sem hér var sagt um fyrra einkavæðingarferli, en þar var margt sem ekki stenst skoðun. Svo ég nefni eitt af handahófi þá var auðvitað framkvæmt mat á hæfi eigenda, en það er ekki ríkisstjórnar eða þingsins að fara í það, það er hlutverk Fjármálaeftirlitsins. Slíkt mat fór að sjálfsögðu fram á sínum tíma.

Bankar gegna vissulega mjög mikilvægu hlutverki, fyrst og fremst til þess að þjóna heimilunum og viðskiptalífinu. Við eigum mjög mikið undir því sem samfélag að bankar gegni því mikilvæga hlutverki sem þeim er ætlað lögum samkvæmt. Þegar kemur að álitamálum um það hversu stóran hlut ríkið á að ætla sér á þeim markaði þá er auðvelt að líta í kringum sig og spyrja: Hvað tíðkast nú annars staðar? Hvað tíðkast í nágrannalöndunum, á Norðurlöndunum sem margir í þessum þingsal vilja gjarnan líta til? Svarið er ósköp einfaldlega að það tíðkast ekki að ríkið sé með yfirburðastöðu á fjármálamarkaði. Það gerist ekki í dag. Það kann að hafa verið staðan, eins og frummælandi nefndi í þessari umræðu, fyrir 100 árum, en það tíðkast ekki í dag. Það sem meira er, endi mál þannig að Íslandsbanki verði framseldur til ríkisins, þá stefnir í að eignarhlutur ríkisins í fjármálafyrirtækjum verði um það bil 25% af landsframleiðslunni. Við höfum aldrei áður staðið frammi fyrir þeirri stöðu.

Ég nefni þetta vegna þess að fjármálafyrirtæki er ekki áhættulaus starfsemi. Við þekkjum það af sögunni. Menn segja að fyrst þegar einkaaðilar komu að þeim rekstri hafi starfsemin orðið sérstaklega áhættusöm, en það er ekki svo. Við höfum dæmi um það í sögunni að undir opinberu eignarhaldi hafi fjármálafyrirtæki lent í kröggum. Nærtækasta dæmið er Landsbankinn.

Það er efnt til þessarar umræðu til þess að ræða sérstaklega um Landsbankann. Það er hreinlega spurt hvort til standi að selja hlut í Landsbankanum. Ég ætla að byrja á því að segja að þegar rætt er um einkavæðingu þá finnst mér að við þurfum að hafa það á hreinu varðandi Landsbankann að mínar hugmyndir og það sem ríkisstjórnin hefur verið að ræða er að Landsbankinn verði áfram í ríkiseigu að verulegu leyti. Ég hef talað fyrir því að ríkið haldi 40% hlut, en að öðru leyti verði bankinn í dreifðu eignarhaldi. Þetta er grundvallaratriði sem mér finnst skipta máli varðandi umræðuna um einkavæðingu, þ.e. breytt eignarhald á stórum hluta bankans en að ríkið verði áfram mjög stór eigandi að Landsbankanum. Ég tel að það sé farsælt fyrir okkur eins og sakir standa, í ljósi reynslunnar meðal annars, að byggja á því í náinni framtíð.

Það ætti hins vegar enginn að velkjast í vafa um það að við stefnum að því að selja bankann. Það ætti ekki að þurfa að spyrja þess hvort það standi til. Það liggur fyrir að Bankasýslan er með þessi mál hjá sér. Hún er að undirbúa greinargerð til fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Við fáum vonandi í þessum mánuði fyrstu áfangaskýrsluna. Síðan á ég von á því að í janúar fáum við lokatillögur Bankasýslunnar sem fer með frumkvæðið í þessu máli að lögum og að sjálfsögðu samkvæmt því sem heimilt er að gera samkvæmt fjárlögum hverju sinni.

Það er spurt hvort til standi að setja reglur um hámarkseignarhlut. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að grípa til þeirra ráðstafana sem hægt er til þess að tempra vald einstakra hluthafa yfir atkvæðamagni í einstökum bönkum. Það er hægt að gera það annars vegar með því að vera með dreift eignarhald við sölu bankans í upphafi, en það er líka hægt að gera það með frekari eftirfylgni. Það er alþekkt og þekkist víða, m.a. í Noregi og í öðrum löndum, að hafa sérstakar reglur til þess að takmarka yfirráð einstakra aðila yfir stjórn banka. Það er með vísan til þess mikilvæga hlutverks sem þeir (Forseti hringir.) sinna.

Ég ætla að reyna að svara tveimur örstuttum spurningum í lokin. Auðvitað verður þetta ekki bara (Forseti hringir.) útboð sem verður framkvæmt hér innan lands, ekkert frekar en skráður banki geti bara gengið kaupum og sölum milli Íslendinga. (Forseti hringir.) Tímamörkin eru þau að í fjárlagafrumvarpinu gerum við ráð fyrir því að hlutir komist á hreyfingu strax á næsta ári.