145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

hugmyndir um einkavæðingu Landsbankans.

[13:54]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Frú forseti. Það er ágætt að ræða um hugsanlega sölu og væntanlega sölu á stórum hluta ríkissjóðs í Landsbankanum. Það væri kannski líka rétt að þingmenn huguðu einhvern tíma að því að ræða í raun um grunnhlutverk ríkisins og til hvers við ætlumst af ríkinu og hvert hlutverk þess er.

Hlutverk þess er meðal annars, og um það erum við líklegast öll sammála, að tryggja hér öflugt heilbrigðiskerfi, öflugt menntakerfi fyrir alla, almannatryggingar þar sem við réttum því samferðafólki okkar hjálparhönd sem á því þarf að halda, innviðir í samgöngum o.s.frv.

En það getur ekki verið að eitt af grunnhlutverkum ríkisins að reka fjármálastofnanir og taka af þeim stórkostlega fjárhagslega áhættu. Þess vegna er skynsamlegt fyrir ríkið að draga sig út úr öllum rekstri fjármálafyrirtækja. Það getur ekki verið langtímamarkmið fyrir ríkið, og skattgreiðendur sérstaklega, að ríkið taki fjárhagslega áhættu og eigi fjármálastarfsemi í formi viðskiptabanka eða fjárfestingarbanka.

Það er skrýtið að hlusta á það að menn skuli annars vegar tala um að ekki sé tímabært að selja Landsbankann, það sé hugsanlegt að mikil arðsemi verði af bankanum á næstu árum og skynsamlegt þar af leiðandi að ríkissjóður haldi þar sínu eignarhaldi, en á sama tíma að ekki séu líkur á að ríkissjóður fái fullnægjandi verð fyrir bankann.

Þetta minnir töluvert á umræðuna um að það er aldrei (Forseti hringir.) réttur tími í huga sumra að lækka skatta. Ýmist vegna þess að það er svo hart í ári fyrir ríkissjóð eða þensla of mikil. (Forseti hringir.) En það er aldrei réttur tími fyrir ríkið að eiga fjármálastofnun og láta skattgreiðendur taka fjárhagslega ábyrgð á slíkum rekstri.