145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

hugmyndir um einkavæðingu Landsbankans.

[13:58]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þetta er þörf umræða og ég þakka fyrir hana. Mér sýnist reyndar full þörf á að ræða þetta frekar og kannski rækilega við 2. umr. fjárlaga.

Ég er þeirrar skoðunar, eins og hv. þm. Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, að ríkið eigi að fara sér hægt og að það liggi ekkert á í þeim efnum, sérstaklega hvað varðar Landsbankann. Landsbankinn er stærsti banki landsins. Landsbankinn hefur líka öðlast ennþá meiri sérstöðu að þessu leyti vegna yfirtöku á sparisjóðum úti um allt land. Hann er ekki bara langstærstur efnahagslega heldur er hann landfræðilega langstærsta fjármálastofnun landsins og sá banki sem einn veitir viðskiptabankaþjónustu á stórum svæðum jafnvel í heilum landshlutum.

Hugmyndir um Landsbankann sem eiginlegan samfélagsbanka eru því mjög nærtækar. Til dæmis tengt því hlutverki hans að leggja honum á herðar skyldur um að veita þjónustu alls staðar þar sem hann er með starfsemi og það góða þjónustu og skella hvergi í lás.

Getu Landsbankans til að greiða arð hefur borið hér á góma. Á meðan svo er að hann getur greitt 30 milljarða plús á ári í arð þá er það ekkert sérstaklega góð hugmynd að selja hann. Vandinn er sá, sem hv. næstsíðasti ræðumaður ætti að athuga, að bankinn getur verið verðmætur og í aðstöðu til að greiða góðan arð en aðstæður á markaði hins vegar þannig að það fáist mjög lélegt verð fyrir hann. Þetta þarf ekki að fara saman því að markaðurinn er ekki fullkominn.

Þannig eru einmitt aðstæður. Hvaða vit er í því ef á að demba inn á markaðinn hérna Arion banka með 177 milljarða eigið fé? Segjum að hann fari á 120–140 milljarða miðað við 0,6-0,8, sem varla verður meira. Íslandsbanki, ef hann kemur í hendur ríkisins með 187 milljarða eigið fé, fer á sama gengi og þá eru það 130–150 milljarðar. Hverjir eiga að kaupa banka fyrir kannski 300 milljarða króna á Íslandi á örfáum missirum? Það er eins og hver önnur della að vera að tala um að henda þar í (Forseti hringir.) viðbót inn á markaðinn kannski 30% hlut í Landsbankanum og gefa hann. (Forseti hringir.) Eða er kannski núverandi hæstv. fjármálaráðherra sömu skoðunar og einn forveri hans að einkavæðing sé svo mikilvæg að það sé jafnvel í lagi að sætta sig við hálfvirði í því skyni að einkavæða?