145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

um fundarstjórn.

[14:12]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að ræða hér um hugsanlega sölu á eignarhlutum í bönkunum sem ríkið á í. Ég ætla að ræða það sem kom fram í máli sjálfstæðismanna og framsóknarmanna ríkisstjórnarflokkanna þar sem hæstv. fjármálaráðherra skammaði fulltrúa Framsóknarflokksins sem töluðu í þessari umræðu og taldi þá tala í kross, að þeir töluðu ekki skýrt. Hv. þm. Frosti Sigurjónsson andmælti sölu á hlut í Landsbankanum sem er ein af forsendum í því frumvarpi til fjárlaga sem fjármálaráðherra hefur flutt til þings. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, telur að það eigi að skipta bönkunum upp. Á að gera það áður en hæstv. fjármálaráðherra selur eða á að gera það eftir á? Svo er samfélagsbankinn óræddur.

Virðulegi forseti. Ég er að reyna að draga fram að við þá ágætu umræðu sem hv. þingmaður upphóf hér áðan kemur loksins fram þessi mikli ágreiningur milli stjórnarflokkanna. Við óskum þess vegna eftir að utanríkisráðherra sé hérna til svara (Forseti hringir.) og að framsóknarmenn eða sjálfstæðismenn taki þátt í umræðu um ÞSSÍ og maður spyr hvort sami ágreiningurinn sé þar. Hvað með hrossakaupin, hvað fær Framsóknarflokkurinn? Hverju þarf Framsóknarflokkurinn að fórna fyrir ÞSSÍ?