145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

um fundarstjórn.

[14:25]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég hélt nú að ég hefði flutt þessa ræðu í morgun. En vegna þess að því var haldið fram að hér við værum með mál sem enginn stuðningur væri við í þinginu ætla ég að minna á að málið sem við ræðum, Þróunarsamvinnustofnun, var samþykkt í ríkisstjórn. (Gripið fram í.) Það var samþykkt í stjórnarflokkum. Á síðasta þingi fór það fyrir utanríkismálanefnd, var afgreitt út úr utanríkismálanefnd í meiri hluta og á nefndaráliti var meiri hluti þingmanna í utanríkismálanefnd og fékk málið þá mjög góða og ítarlega umfjöllun. Það fór svo aftur á þessu þingi í gegnum 1. umr. og fyrir utanríkismálanefnd. Þegar menn halda því fram að ekki sé stuðningur við málið í þingsalnum þá kemur hann auðvitað ekki fram meðan stjórnarandstaðan ræðir málið aftur og aftur og í andsvörum við sjálfa sig. Ráðherra var viðstaddur 1. umr. málsins. Ég veit ekki betur en að fulltrúar meiri hlutans (Forseti hringir.) í utanríkismálanefnd séu hér á staðnum. Venjan er sú að ráðherrann sé við 1. umr. (Forseti hringir.) Það getur ekki komið í ljós hver staðan er í þinginu gagnvart þessu máli fyrr en kemur til atkvæðagreiðslu í þingsal.