145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

um fundarstjórn.

[14:26]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við hv. þm. Ásmund Einar Daðason vil ég segja: Nei, fulltrúar meiri hluta stjórnarinnar í utanríkismálanefnd eru ekki viðstaddir þessa umræðu, ekki frekar en utanríkisráðherra. Maður skilur vel að utanríkisráðherra vilji frekar vera vestur á fjörðum eða í Skagafirði meðan þessi umræða fer fram. Það er ósköp eðlilegt að menn sem hafa svo slæman málstað og engan málstað reyni að vera í burtu.

En hv. þingmaður var að tala um allan ferilinn; ríkisstjórnarsamþykkt, samþykktir þingflokka og allt það. Það gerðu nefnilega þingflokkarnir líka og þingmennirnir við fjárlagafrumvarpið þar sem gert er ráð fyrir sölu á eignarhlut í Landsbankanum. Hér áðan kom fram mjög skýrt mikill ágreiningur milli stjórnarflokkanna um söluna þar sem fjármálaráðherra notaði sínar mínútur til að gera grín og gys að framsóknarmönnum sem voru að andmæla sölunni. (Forseti hringir.) Mér er til efs að nokkrir þingmenn eða nokkur þingflokkur hafi farið aðra eins sneypuför í ræðustól Alþingis og gerðist hjá völdum fulltrúum Framsóknarflokksins í umræðu um bankasölu.