145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns endurtaka það sem fram fór undir liðnum fundarstjórn forseta áðan og gagnrýni hv. þingmanna á málsmeðferð. Í umræðunni hafa verið settar fram mjög stórar spurningar og dregnar fram umsagnir sem leiða líkur að því að þetta mál og málsmeðferðin öll sé ekki byggt á sterkum stoðum og jafnvel á miklum misskilningi. Kallað hefur verið eftir hæstv. utanríkisráðherra til að fara yfir þetta með hv. þingmönnum á meðan á umræðunni stendur og því hefur ekki verið sinnt.

Ég verð að segja, frú forseti, að það gerist æðioft í umræðunni, og hefur gerst æðioft síðan þessi hæstv. ríkisstjórn tók við stjórnartaumunum, að hv. þingmenn hafa kallað eftir viðveru hæstv. ráðherra en þeir hafa ekki sinnt þeirri beiðni hæstv. forseta. Það er hæstv. forseti, sem er forseti okkar allra, sem ræður ríkjum hér á Alþingi og vitaskuld eiga hæstv. ráðherra að gegna hæstv. forseta þegar hann kallar á hæstv. ráðherra til að sinna þörfum hv. þingmanna, því að hæstv. ríkisstjórn starfar í umboði Alþingis en ekki öfugt.

Mér finnst þetta vera eitthvað sem hv. forsætisnefnd eigi að fara yfir og ræða. Hvernig er staða Alþingis? Er hún er að veikjast þessi missirin? Erum við að hverfa lengra frá niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis sem talaði einmitt um að styrkja þyrfti þingið?

Ég vona að hæstv. forseti hugleiði þetta og einnig það að hér er uppi mikið ágreiningsmál, sem þó, eins og komið hefur fram í máli hv. þingmanna í umræðunni, er hægt að finna sáttaflöt á. Ein leiðin er til dæmis sú að bíða eftir DAC-úttektinni sem senn er að ljúka, það er úttekt á Þróunarsamvinnustofnun Íslands sem er að detta inn, frú forseti. Hvers vegna má ekki bíða eftir þeirri úttekt? Hvað liggur á?

Það gekk meira að segja svo langt að í umræðu um málið og í lokaafgreiðslu þess fyrir 2. umr. gáfu fulltrúar stjórnarflokkanna í hv. utanríkismálanefnd sér ekki tíma til að kalla inn gesti og fá skorið úr um mörg álitamál sem uppi voru, þeim lá mikið á að ljúka málinu í nefndinni og koma því inn í þingið.

Minni hluti hv. utanríkismálanefndar lagði fram bókun. Mig langar, frú forseti, að rifja upp þá bókun. Hún er svona, með leyfi forseta:

„Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í utanríkismálanefnd leggjast alfarið gegn því að frumvarp um þróunarmál, sem miðar að því að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun, verði afgreitt frá nefndinni án þess að fá tækifæri til að ræða efni frumvarpsins við lykilstofnanir, svo sem Ríkisendurskoðun, en flutningur verkefna frá sjálfstæðri stofnun inn í ráðuneyti er í andstöðu við ítrekaðar ráðleggingar Ríkisendurskoðunar um góða stjórnsýslu og skýr mörk framkvæmdar og eftirlits. Vinnubrögð af þessu tagi eru í andstöðu við hefðbundið verklag þingnefnda og koma í veg fyrir að þingmenn geti uppfyllt rannsóknarskyldu sína. Allir umsagnaraðilar og sérfræðingar sem nefndin hefur rætt við hafa borið lof á ÞSSÍ fyrir skilvirkni og góða meðferð þróunarfjár. Niðurlagningu stofnunarinnar er lýst af félagsvísindadeild HÍ sem „bráðræði.“ Þvert á stefnu frumvarpsins um að leggja Þróunarsamvinnustofnun Íslands niður hafa komið fram tillögur í vinnu nefndarinnar um að starf Íslands í þróunarsamvinnu mætti efla með því að flytja til stofnunarinnar öll þau marghliða verkefni innan málaflokksins sem nú er sinnt af ráðuneytinu sjálfu. Engin tilraun var gerð af hálfu nefndarinnar til að skoða þá leið. Þingmenn Samfylkingar, VG, Bjartrar framtíðar og Pírata harma þessi vinnubrögð og telja ámælisvert að meiri hlutinn treysti sér ekki til að fá lykilstofnun Alþingis, Ríkisendurskoðun, til viðræðna um frumvarpið.“

Frú forseti. Mér finnst þessi bókun mjög skýr og hún er harðorð og afdráttarlaus. Ég vil taka undir hana hér.

Það vekur líka athygli þegar rætt er um nákvæmlega þessa breytingu og þetta frumvarp um Þróunarsamvinnustofnunina, þar sem er lagt til að hún verði tekin inn í ráðuneytið, að engin heildstæð stefna í stjórnsýslunni hefur verið lögð fram. Utanríkisráðuneytið og hæstv. utanríkisráðherra er með þá stefnu að taka til sín stofnanir sem enginn hefur kvartað undan og mikil sátt hefur verið um, á meðan hæstv. menntamálaráðherra er að útvista stórum hluta starfsemi mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Hvar er stefna hæstv. ríkisstjórnar í þessum málum? Hana skortir. Kannski er það þannig að hæstv. framsóknarráðherrarnir vilja taka til sín stofnanir, en hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins útvista þeim. Ég skal ekki segja, en svona lagað á ekkert að vera á hendi ráðherranna heldur á hæstv. ríkisstjórn að koma sér saman um stefnu í þessum málum.

Til eru margar góðar skýrslur sem meðal annars voru unnar á síðasta kjörtímabili um bætta stjórnsýslu, sterkari ráðuneyti og sterkari stofnanir sem ég vil benda hæstv. ríkisstjórn á að skoða og hv. þingmönnum stjórnarflokkanna að kynna sér.

Frú forseti. Ég er tiltölulega nýkomin af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Ég var þar ásamt þremur öðrum hv. þingmönnum. Við funduðum um þróunarsamvinnu, áttum marga fundi um þróunarsamvinnu. Alls staðar þar sem Þróunarsamvinnustofnun bar á góma fékk hún hrós og lof og við vorum satt að segja öll mjög stolt af okkar stofnun og því hrósi sem hún fékk. Þróunarsamvinnustofnun starfar aðallega í þremur löndum þó að hún sé með smærri verkefni annars staðar. Hún starfar í Malaví, Mósambík og Úganda. Verkefnin snerta mæður og börn og menntun og heilsugæslu. Við höfum staðið okkur mjög vel. Bent hefur verið á að það er ekkert land sem starfar í svona fáum löndum eins og við gerum og í því sambandi hefur verið bent á að það sé óvarlegt að ætla að fara að draga eitthvað úr þeirri starfsemi.

Í nefndaráliti minni hlutans er farið afskaplega vel yfir þau sjónarmið sem styðja það að þessi ákvörðun er ekki skynsamleg. Það er engin rök að finna fyrir henni. Málið er vanbúið, óljóst og byggir að hluta til á misskilningi, segir í nefndaráliti minni hluta hv. utanríkismálanefndar.

Það er ekki þannig að það séu einhver haldbær rök sem fyrir liggja til þess að leggja stofnunina niður heldur er þvert á móti, í greinargerð með frumvarpinu, tekið sérstaklega fram að stofnunin hafi unnið svo gott starf á vettvangi að eftir því sé tekið.

Frú forseti. Ég get staðfest það og var að gera það áðan, því að um það var talað við okkur hv. þingmenn sem fórum á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna á dögunum.

Það er talað um að frumvarpið sé byggt á skýrslu Þóris Guðmundssonar sem var starfsmaður Rauða krossins þegar sú skýrsla var gerð — en hann nefnir þar ýmsa möguleika í þróunarsamvinnunni og minni hlutinn gagnrýnir að ekki sé leitað fleiri sjónarmiða. Það er vitnað hér í úttekt DAC sem var nú reyndar mjög jákvæð, síðasta úttekt sem gerð var, og það er verið að gera nýja. Minni hlutinn hefur stungið upp á þeirri sátt, í meðferð þessa máls, að málið verði tekið af dagskrá meðan beðið er eftir þeirri skýrslu. Síðan yrði unnið út frá niðurstöðu hennar þegar tekin er ákvörðun um hvað eigi að gera í þessu máli.

Í áliti minni hlutans er líka bent á að í öðrum löndum eins og á Ítalíu þá sé einmitt verið að fara aðrar leiðir en hæstv. ráðherra vill fara í þessu með íslensku Þróunarsamvinnustofnunina og skipulagið og utanumhaldið um þróunarsamvinnu. Minni hlutinn bendir á í áliti sínu að Þróunarsamvinnustofnun Íslands telst til fyrirmyndarstofnunar ríkisins og Ríkisendurskoðun hefur til dæmis ítrekað afgreitt ársreikning stofnunarinnar athugasemdalaust. Þannig að þarna er að minnsta kosti ekki stoð undir þá ákvörðun að leggja stofnunina niður.

Í nefndarálitinu er líka sagt að ítrekað hafi komið fram í máli gesta á fundum nefndarinnar að markmið um að styrkja tengslin á milli þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála feli í sér ákveðna hættu á að þróunarsamvinna yrði tengd við óskylda þætti utanríkisstefnunnar. Varðandi þetta þá vil ég, með leyfi forseta, vitna í greinargerð með tillögu til utanríkisráðherra um Þróunarsamvinnustofnun sem gerð var árið 2008 af Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur stjórnsýsluráðgjafa. Skoðunin sem sú greinargerð byggði á beindist að fyrirkomulagi þróunarsamvinnunnar innan utanríkisþjónustunnar hér á landi og miðast tillögurnar í greinargerðinni við að skýra stöðu málaflokksins innan stjórnsýslunnar. Þar verður lögð áhersla á mikilvægi þess að styrkja myndun þekkingarsamfélags í þróunarmálum hér á landi til að tryggja aðgang stjórnsýslunnar að sérfræðiþekkingu byggðri á menntun og reynslu af Þróunarsamvinnu Íslands.

Ég vil, með leyfi forseta, fá að vitna hér orðrétt í greinargerðina:

„Árangur af þróunarsamvinnu er nátengdur pólitískum sveiflum bæði í framlagslandinu og viðtökulandinu. Þróunarsamvinna er viðfangsefni sem krefst langtímaskuldbindinga af beggja hálfu vegna þess að árangur af þróunarsamvinnu er ekki mældur á einu eða tveimur árum. Árangur skilar sér oftast ekki fyrr en að mörgum árum liðnum. Mörg viðfangsefni þróunarsamvinnu eru þess eðlis að „meðgangan“ er löng og að lokinni „fæðingu“ tekur oft við langt tímabil „uppeldis og kennslu“. Þá er þróunarsamvinna í sjálfu sér hápólitísk og um hana ríkir pólitískur ágreiningur. Pólitískar dægursveiflur og þróunarsamvinna fara hins vegar oftast illa saman. Til að árangur náist í þróunarsamvinnu þarf að ríkja um hana breið pólitísk samstaða og almennur stuðningur til lengri tíma.“

Getur verið, frú forseti, að ágreiningur ríki um þróunarsamvinnu innan stjórnarflokkanna? Við höfum heyrt einstaka hv. þingmenn tjá sig með þeim hætti, en stór er nú meiri hlutinn, þannig að það er ekki víst að það sé meirihlutavilji fyrir að reyna að rýra þróunarsamvinnu Íslands. Ég vona svo sannarlega að svo sé ekki.

Ég vil þó, frú forseti, orða hugsanir mínar varðandi þessa ákvörðun sem virðist eiga að taka með svo litlum rökum og stíga þarna skref sem er viðbúið að veiki þróunarsamvinnu Íslands og rýri þá þekkingarsöfnun sem orðið hefur í þessari ágætu stofnun sem allir eru svo ánægðir með, þó að hæstv. ráðherra vilji leggja hana niður og hv. stjórnarþingmenn.

Það sem ég vil minna á hér er hagræðingarhópur. Hagræðingarhópur hæstv. ríkisstjórnar lagði fram 111 tillögur í upphafi kjörtímabils. Ein af hinum 111 tillögum þessa hagræðingarhóps hæstv. ríkisstjórnar var að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun og renna henni inn í utanríkisráðuneytið. Í þessari hagræðingarnefnd eru, sjálfsagt er hún enn starfandi þó að mér sé ekki kunnugt um það, hv. þingmenn Vigdís Hauksdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Ásmundur Einar Daðason, ásamt Unni Brá Konráðsdóttur. Þetta er þeirra tillaga. Þessir forustumenn og meiri hluti hv. fjárlaganefndar skar meira niður í utanríkisráðuneytinu en í öðrum ráðuneytum þegar þeir voru að vinna með fjárlagafrumvarpið á þessu kjörtímabili, þeir hafa skorið hlutfallslega mun meira niður í utanríkisráðuneytinu en í öðrum ráðuneytum. Það má vera að einhvers staðar sé uppi krafa um að taka tillögur hagræðingarhópsins til greina og að hæstv. ráðherrar hafi mátt velja tillögur til að framfylgja og að hæstv. utanríkisráðherra hafi fyrir sitt leyti valið þá tillögu að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Það sé í raun ástæðan og þess vegna séu röksemdirnar svona rýrar og þess vegna vilji hæstv. ráðherra ekki vera hér í umræðunni og kæri sig ekki um að svara þeim spurningum sem lagðar hafa verið fram.

Ég vil nefna þetta hér, frú forseti, vegna þess að við sem eigum eftir að taka ákvörðun í þessu máli erum að reyna að skilja hvernig í ósköpunum stendur á því að málið er hér statt í þessum mikla ágreiningi og í þessum umbúnaði sem við sjáum það í.

Það er ekki skemmtilegt að segja þetta, frú forseti, en sá grunur læðist að mér að hv. þingmenn, sem voru í hagræðingarhópnum, hafi viljað gera sig gildandi og krafist þess að tekið verði tillit til einhverra þessara 111 tillagna og hver og einn hæstv. ráðherra leggi sitt af mörkum hvað það varðar og hæstv. utanríkisráðherra hafi valið þessa tillögu. Það virðist ekki vera dýpri hugsun á bak við þetta. Það má líka vera að hæstv. utanríkisráðherra fagni því að fá fleiri starfsmenn inn í ráðuneytið til að sinna störfum sem eru mikilvæg í því ráðuneyti, þar sem búið er að skera svo niður og þar sem mikið álag er á hverjum og einum. Ef þeir fengju starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar inn í ráðuneytið væri hægt að dreifa álaginu. Hættan er hins vegar sú, eins og bent hefur verið á, að þar með þynnist út sérþekkingin sem byggð hefur verið upp í stofnuninni og að milliríkjastarf starfsmanna utanríkisþjónustunnar eigi illa samleið með þróunarsamvinnu.

Frú forseti. Ég sé að tími minn er á þrotum og læt ég því lokið máli mínu að þessu sinni en mun væntanlega koma aftur í ræðu þegar hæstv. utanríkisráðherra hefur komið hér og skýrt málin fyrir okkur.