145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:58]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sem hv. þingmaður nefnir er einmitt það sem stjórnsýslufræðingar hafa gagnrýnt, þ.e. að eftirlitið og framkvæmdin sé á sömu hendi, að það skipti máli að ráðuneytið hafi eftirlit með stofnuninni, að þetta sé ekki góð stjórnsýsla.

Ég get hins vegar vel skilið að hæstv. ráðherra, sem hefur þurft að þola mikinn niðurskurð í sínu ráðuneyti og meiri en önnur ráðuneyti, leiti leiða til þess að ná fleira starfsfólki inn í ráðuneytið til að sinna því mikilvæga starfi sem þar þarf að sinna. Þetta er hins vegar ekki leiðin til að gera það.

Hér hafa bæði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, hæstv. forsætisráðherra og fleiri í stjórnarmeirihlutanum lýst því fjálglega hvað við erum á góðum stað með ríkisfjármálin. Við erum svo sannarlega á miklu betri stað en þegar við vorum að glíma hér við hina miklu efnahagslegu dýfu eftir efnahagshrun. En til þess að mæta þeirri stöðu sem stjórnsýslan er í, hún er of veik, það eru of fáir sem bera hana uppi, það getur líka verið hættulegt fyrir sjálfstæða þjóð að vera með veika stjórnsýslu, þá á frekar að styrkja hana. Það á ekki að leggja niður stofnun sem er allt í fína lagi með og meira en það, allir eru mjög ánægðir með, bæði hér heima og utan lands.

Ég vara við þessu og tek undir það sem sérfræðingar í stjórnsýslu hafa sagt um að hafa bæði eftirlit og framkvæmd (Forseti hringir.) á sömu hendi.