145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:03]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki sagt annað en að ég vona að svo sé ekki. Ég vona að það eigi ekki að fara að taka peninga úr þróunarstarfinu í Malaví og Mósambík og Úganda, sem varðar mæður og börn og menntun og heilsugæslu, til þess að fara í einhver önnur verkefni. Ég hef ekki trú á því. Ég held að þetta sé nú meira einhver skammtímaredding til þess að redda ráðuneytinu sem er í vanda vegna niðurskurðar.

Það er ekki bara prófessor Jónína Einarsdóttir sem hefur bent á og gagnrýnt að þessi ráðstöfun sé ómöguleg, heldur eru umsagnirnar nánast flestar neikvæðar hvað þetta varðar. Það hefur komið hér fram og það er nú kannski rétt að ítreka það að ráðstöfun sem er einmitt eins og fyrirkomulagið sem er við lýði hérlendis, þar sem stefnumótun og eftirlit fer fram í ráðuneyti en framkvæmd er á hendi undirstofnunar, er algengast á meðal DAC-ríkjanna. Það kemur líka fram í nefndaráliti minni hlutans. Þetta er algengasta fyrirkomulagið. Þetta er það sem Ítalir eru núna að fara í vegna þess að þeir telja það mun betra. Það er almennt viðurkennt að stefnumótun og eftirlit fari fram á einum stað og framkvæmdin síðan á öðrum. Það er svipað með Alþingi og framkvæmdarvaldið að stefnan og eftirlitið fara fram hér en við felum síðan framkvæmdarvaldinu að framfylgja stefnunni. Sama á að vera þegar um þróunarsamvinnu er að ræða og stofnun sem hefur getið sér svo góðs orðs og engin ástæða er til að leggja niður.