145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:06]
Horfa

Lárus Ástmar Hannesson (Vg):

Frú forseti. Enn er verið að ræða færslu Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, sem gjarnan er skammstöfuð ÞSSÍ, úr sértækri sérfræðistofnun yfir í utanríkisráðuneytið, þ.e. það á að leggja niður sérstaka fagstofnun og færa inn í ráðuneytið undir ráðherra og embættismenn.

Nú höfum við stundum talað um að við þurfum að byggja upp traust í samfélaginu og ég held að það sé mjög mikilvægt á næstu árum að reyna að upphefja það svo þjóðin fá ef til vill eitthvert traust á þessari stofnun og innviðum samfélagsins. Þessi aðgerð verður klárlega ekki til þess. ÞSSÍ er ekki hvaða stofnun sem er. Þetta er fagstofnun með mikla sérþekkingu sem er búin að vinna vel í tugi ára og nýtur trausts, kannski af því að pólitíkin hefur í rauninni verið fyrir utan stofnunina. Hún hefur fyrst og fremst sinnt sínu hlutverki og gert það vel þannig að eftir hefur verið tekið.

Núna á hins vegar að taka stofnunina og færa hana í heilu lagi inn í utanríkisráðuneytið sem gerir það að verkum að stofnunin mun heyra beint undir ráðherra og verða þar af leiðandi undir pólitíkinni. Það er vont og það er rangt.

Ég ákvað áður en ég færi hér í ræðustól til að ræða þetta mikilvæga mál að kynna mér aðeins betur starfsemi stofnunarinnar sem hér um ræðir. Ég þóttist vita nokkurn veginn um hvað málið snerist en ég ákvað að grafa dýpra og komst að því að stofnunin vinnur aðallega í þremur löndum, þ.e. í Mósambík, Malaví og Úganda. Þetta eru mjög fátæk lönd þar sem fólk býr við mikla neyð og stofnunin hefur lagt mikið af mörkum til þess að létta fólki þarna lífið eins og mögulegt hefur verið.

Stofnunin hefur lagt sérstaka áherslu á í sinni starfsemi í þessum löndum að hlúa að konum og börnum, efla menntun og heilbrigðisþjónustu. Stofnunin hefur eytt fjármunum í að byggja brunna og berjast við kóleru. Hún er sem sagt að auðvelda þessu fólki sem býr við þessa eymd lífið og kannski oft á tíðum að færa því lífið. Við skrúfum frá krönum í Malaví, Mósambík og Úganda, þar byggir Þróunarsamvinnustofnun Íslands brunna.

Ég er nú ekki sá tarfur að ég geti ekki tekið þátt í að breyta hlutum og er tiltölulega opinn fyrir þeim. En þá þarf líka að vera ástæða til og það þarf að vera skynsemi í því og það þarf að vera rökstutt. Það þarf að gera það líka í þessu máli, ekki síst ef við hugsum um hvað þessi stofnun er að gera, hvaða trausts hún nýtur og hvert er verið að færa hana. Breytingar geta verið ágætar en þær þurfa að vera rökstuddar. Það er þannig í þessari umræðu að hér er enginn til þess að ræða við um þessi mál. Er þessi breyting faglega góð? Í því sambandi vil ég, með leyfi forseta, vitna í gott nefndarálit minni hluta utanríkismálanefndar, en þar stendur:

„Hvergi liggur fyrir greining á því hvaða vanda er ætlað að leysa með því að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun Íslands (ÞSSÍ) og færa verkefni hennar inn í utanríkisráðuneytið. Þvert á móti liggur fyrir að ÞSSÍ hefur staðið sig með mikilli prýði og hlotið lof fyrir störf sín, m.a. frá þróunarsamvinnunefnd OECD, DAC. Engin haldbær rök koma fram í frumvarpinu fyrir því að leggja stofnunina niður. Þvert á móti er í greinargerð tekið sérstaklega fram að stofnunin hafi „unnið svo gott starf á vettvangi að eftir því er tekið““.

Ég ætla að endurtaka þessa setningu: „hafi unnið svo gott starf á vettvangi að eftir því er tekið“. Það er einnig sagt „að ÞSSÍ hafi „margsannað sig í óháðum úttektum“. Í þessu ljósi er frumvarp utanríkisráðherra um að leggja stofnunina niður illskiljanlegt.“

Ég verð að viðurkenna að þetta er mér líka mjög illskiljanlegt. Þarna er stofnun sem hefur margsannað sitt í óháðum úttektum. Hún hefur hlotið mikið lof svo eftir er tekið fyrir störf sín. Leggjum hana niður. Færum þessa stofnun sem lýtur gagnsæi og opinberu eftirliti undirstofnana inn í pólitískt ráðuneyti þar sem eftirlitið er lakara. Mun það auka traustið sem við tölum svo gjarnan um? Ég held ekki.

Ég er með orðum mínum að reyna að finna fyrir sjálfan mig rök sem mæla með þessu og ég er að fjalla um þann þátt sem ég vil kalla faglega þáttinn og reyna að rökstyðja þessar breytingar.

Ég er búinn að hlusta á nokkrar ræður hér sem að vísu eru bara frá stjórnarandstæðingum. Það virðist ekki vera mikil ásókn meiri hlutans í að tala fyrir þessu máli. Mér finnst það skiljanlegt. Ég mundi ekki vilja það sjálfur af því að þetta er mikil ábyrgð.

Þá langar mig, með leyfi forseta, að vitna hér aftur í áðurnefnt nefndarálit:

„DAC klykkir út með því að segja að með aðild Íslands að þróunarsamvinnunefndinni muni einstök nálgun Íslands og 30 ára reynsla gagnast henni vel. Það er því erfitt að komast að annarri niðurstöðu en að úttekt DAC gefi ÞSSÍ og rammanum um þróunarsamvinnu Íslands mjög góða einkunn.“

Mjög góða einkunn. En leggjum hana niður. Færum hana, gerum hana ógagnsæja. Einhvers staðar eru menn að reyna að ná völdum um eitthvað sem ég skil ekki. Einhvers staðar eru menn að reyna að ná einhverjum þráðum, hulduþráðum, og enginn hér er tilbúinn að koma og verja það. Enginn er tilbúinn að koma hér upp og segja mér af hverju er verið að gera þetta.

Það er ekki eins og þessi stofnun einkennist af skussahætti og lélegum vinnubrögðum. Þvert á móti þá hefur stofnunin ÞSSÍ vakið heimsathygli og m.a. óskaði þýska systurstofnunin eftir því að fá að kynnast starfsemi ÞSSÍ til þess að vita hvort ekki væri hægt að taka einhverja punkta úr starfsemi hennar og nýta í sinni starfsemi.

Herra forseti. Ég hef búið í Þýskalandi og þekki þá þjóð ágætlega. Það er vandað fólk sem vandar yfirleitt til verka og ég hélt satt best að segja að það væri ekki margt sem við á Íslandi gætum kennt Þjóðverjum. Ég hef frekar verið á því að það væri margt sem að þeir gætu kennt okkur. En þarna er alla vega komið eitthvað sem við getum hjálpað þeim með og þeir vilja leita eftir.

Ég vil halda áfram að vitna hér í þetta ágæta nefndarálit minni hlutans, með leyfi forseta:

„Í umræðum á Alþingi og á fundum nefndarinnar voru ráðherra og fulltrúar utanríkisráðuneytis þráspurðir um samstarf ráðuneytisins við ÞSSÍ og hvort einhver dæmi væru um að samskipti ÞSSÍ við erlenda aðila hafi ekki verið í takt við utanríkisstefnu Íslands. Fulltrúar ráðuneytisins báru samstarfinu við ÞSSÍ almennt mjög gott vitni. Eina dæmið sem nefnt var af hálfu þess var að tillögur um orðalag varðandi samkynhneigð í Úganda þurftu að fara nokkrum sinnum á milli ráðuneytis og umdæmisskrifstofu áður en það var slípað til niðurstöðu.“

Orðalag um samkynhneigð í Úganda var það sem hafði þurft að fara aðeins á milli. Að öðru leyti ekki neitt. Starfsemin var svo góð að það var helst hægt að setja út á orðalag varðandi samkynhneigð í Úganda.

Ég ætla að halda áfram, með leyfi forseta, og lesa upp úr nefndarálitinu:

„Slík skoðanaskipti milli starfsmanna á vettvangi og ráðuneytis eru hins vegar alsiða og í fullkomnu samræmi við almennt verklag í utanríkisþjónustunni. Ljóst er að ÞSSÍ upplifði þessi skoðanaskipti síður en svo sem ágreining enda tiltekur stofnunin þetta tilvik sérstaklega í umsögn sinni: „Þá gæta starfsmenn stofnunarinnar þess ætíð að fylgja utanríkisstefnu Íslands til hins ýtrasta og koma stefnu stjórnvalda vel til skila, óski utanríkisráðuneytið þess. Sem dæmi má taka umræðu um málefni samkynhneigðra í Úganda þar sem umdæmisstjóri Þróunarsamvinnustofnunar fylgdi fyrirmælum ráðuneytisins í öllum samskiptum við stjórnvöld og önnur framlagsríki.“

Þetta þýðir að stofnunin vinnur faglega. Hún vinnur með utanríkisþjónustunni og leitast ávallt við að leita sátta og hafa fagmennskuna í fyrirrúmi.

Ég gæti haldið lengi áfram að ræða hér um faglega þáttinn sem ég held að þurfi að skoða áður en menn taka ákvörðun um svo afdrifaríka niðurstöðu eins og virðist vera ætlun meiri hluta Alþingis, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. En ég hef ekki enn þá fundið nein fagleg rök enda hefur enginn komið fram til þess að bera þau á borð.

Þá ætla ég að fara yfir í rekstrarþáttinn. Það getur réttlætt breytingar ef við getum notað rekstrarþáttinn sem rök. Ég hugsaði þegar ég var búinn að fara yfir faglega þáttinn, sem var enginn, að það hlyti að vera einhver rosaleg hagræðing sem af þessu hlytist. En því miður kom heldur ekkert í þann poka.

Stofnunin er rekin af framlögum úr ríkissjóði en auk þess hefur Norræni þróunarsjóðurinn falið stofnuninni að nota 700 milljónir í hjálparstarf. Stofnun sem ekki nýtur trausts er ekki falið að nota 700 milljónir til þess að gera góða hluti. Það er alveg á hreinu að hún hefur greinilega áunnið sér mikla virðingu og er viðurkennd stofnun innan geirans. Þetta er stór upphæð.

Ég ætla að vitna aftur í nefndarálit minni hluta utanríkismálanefndar þar sem stendur varðandi reksturinn:

„Í umsögnum og máli gesta sem komu fyrir nefndina kom enn fremur fram að stjórnsýslan hefði þróast á þann veg að stefnumörkun og eftirlit með framkvæmd hennar væri á hendi ráðuneyta en framkvæmdin sjálf á hendi faglegra stofnana. Þetta er í anda eindreginna leiðbeininga Ríkisendurskoðunar síðustu 20 árin um að framkvæmd og eftirlit séu ekki á sömu hendi.“

Þetta er mjög snjallt, að hafa ekki framkvæmd og eftirlit á sömu hendi. En það er hins vegar það sem á að gera. Það er ekkert sem bendir til þess að í rekstrinum sé einhverju ábótavant og þurfi að skoða djúpt enda er það tekið fram að Ríkisendurskoðun hefur í 20 ára sögu aldrei gert athugasemd við bókhald eða starfsemi stofnunarinnar.

Þá er ég búinn með rekstrarlegu rökin og þau eru jafn fátækleg og faglegu rökin. Ég rak líka augun í það að lönd eins og Ítalía sem er að endurskoða sambærilega stofnun sína hafa horft til Íslands með það fyrir augum að færa starfsemi sína í það form sem hér hefur tíðkast.

Ekki eru það rekstrarlegu rökin, ekki eru það faglegu rökin. Hver getur þá verið ástæðan fyrir þessu? Hver er ástæðan fyrir því að menn vilja fara í þessa vegferð? Þetta er algjörlega röklaust og enginn er tilbúinn að taka þátt í þeirri umræðu og að reyna að mæla málinu bót. Ég skil það.

Ég get ekki annað en tínt þá til tvennt í því samhengi hver ástæðan gæti verið. Það hefur að vísu komið fram og kemur fram í nefndaráliti minni hlutans í þessu máli að það virðist vera sem embættismenn innan utanríkisráðuneytisins séu sérstaklega áfjáðir í að fá stofnunina beint undir sig. Það hefur sex sinnum á síðustu 20 árum verið gerð tilraun til þess að ná þessari stofnun, þessari faglegu góðu stofnun, undir ráðuneytið. Sex sinnum á 20 árum. Sem betur fer hafa utanríkisráðherrar hingað til staðið þá ásókn embættismannanna af sér. En svo virðist ekki vera núna, því miður. En við verðum að velta því fyrir okkur hver ræður í utanríkisráðuneytinu og hver ræður í þessu landi, eru það stjórnmálamenn eða embættismenn? Ef embættismennirnir og hæstv. ráðherra hefðu komið með rök, fagleg eða rekstrarleg, þá hefði málið horft öðruvísi við.

Önnur ástæða sem gæti verið og hefur aðeins verið reifuð hér er einhvers konar hrossakaup á milli stjórnarflokkanna. Nú er það örugglega þannig að stundum eru gerð hrossakaup í stjórnmálum eins og annars staðar. Ég er búinn að vera með hesta í 40 ár og geri stundum hestakaup og var mjög virkur í því á tímabili. En þetta mál er bara þess eðlis að við getum ekki leyft okkur eitthvað svoleiðis. Við erum að tala um traust. Við erum að tala um fátækt fólk sem við erum að vinna með þannig að það hafi vatn, þannig að það hafi mat, þannig að það hafi lyf við malaríu og öðru. Við getum ekki leyft okkur hrossakaup í þessu samhengi.

Ég vona svo sannarlega að þetta eigi ekki við rök að styðjast en ég hef bara ekki heyrt í neinum sem andmælir þessu eða segir mér af hverju er verið að þessu. Á meðan enginn gerir það þá fer ég að leiðast út í það að trúa því að þetta séu hrossakaup. Þetta séu embættismenn sem vilji ná peningastreyminu út úr þessari sértæku fagstofnun inn í ráðuneytið, inn í minna gagnsæi, inn í minni fagmennsku eða að þetta séu hrossakaup eða hvort tveggja.

Herra forseti. Nú er tíminn að verða búinn hjá mér í þetta sinn (Forseti hringir.) en ég vil að lokum segja að það er að sjálfsögðu ekki boðlegt að ræða svona stórt mál og ráðherra er ekki hér til andsvara.