145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:33]
Horfa

Lárus Ástmar Hannesson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Nú veit ég ekki alveg hvernig klúbbur þetta er en þessi klúbbur ber mikla ábyrgð og þarf að vanda til verka og þeir sem þar sitja fyrir fulltrúa sína þurfa að sjálfsögðu að upplýsa fólk sitt um það hvað er á seyði.

Þetta er alveg óskiljanlegt því að minni hlutinn á Alþingi hefur, finnst mér, boðið mjög afdráttarlaust til umræðna um ágæta lausn í þessu máli. Það er að taka málið af dagskrá og bíða eftir nýrri skýrslu DAC sem kemur eftir einhverja mánuði, eftir ekki langan tíma.

Ég fyllist tortryggni við það að vita til þess að stjórnarmeirihlutinn sé ekki tilbúinn til að bíða eftir þeirri skýrslu. Hvað er það í skýrslunni sem þau hræðast? Ég velti því fyrir mér.

ÞSSÍ hefur starfað í tugi ára, byggt upp reynslu, þekkingu og fagmennsku og einhverjir mánuðir til eða frá í því að breyta þessu, ef menn ætla að djöfla því í gegn, geta ekki skipt máli. Ég er mjög hissa yfir því að menn skuli ekki vilja stíga inn í þennan dans, sérstaklega þegar stofnunin hefur unnið eins gott starf og raun ber vitni.

Enn og aftur hvet ég herra forseta til þess að gera allt sem í hans valdi stendur til að leiða þetta mál í betri farveg öllum til heilla.