145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:35]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að hann væri ekki slíkur tarfur að hann mundi ekki vera tilbúinn að skoða einhverjar breytingar ef rök og skynsemi væru fyrir hendi. Það er að vísu mjög sérstakt í ljósi þess að hann er þingmaður VG.

En ég vil spyrja hv. þingmann hvort í greinargerðinni með frumvarpinu sé ekki talsvert ítarlegur rökstuðningur fyrir þeirri breytingu. Þar kemur meðal annars fram að þróunarsamvinna sé ein að meginstoðum utanríkisstefnu Íslands og einn stærsti einstaki málaflokkurinn sem ráðuneytið sinnir. Með því að færa starfsemi ÞSSÍ inn í ráðuneytið sé verið að tryggja að öll samskipti við erlend ríki og stofnanir á sviði þróunarsamvinnu séu samstillt og í takt við utanríkisstefnu Íslands, auk þess sem íslensk stjórnvöld tali þá einni röddu um þróunarsamvinnu á alþjóðavettvangi. Síðan er rakið ítarlega á bls. 7 um samlegðaráhrif og hagkvæmni. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með því að færa framkvæmdina á eina hendi er verið að einfalda skipulagið. Betri heildarsýn mun nást yfir málaflokkinn og stefnumótun verða markvissari þegar um einn ábyrgðaraðila er að ræða. Samhæfing mun eflast, framkvæmd verða skilvirkari og samlegðaráhrif af starfi Íslands á sviði þróunarsamvinnu aukast. […] Með því að öll þróunarsamvinna sé á einni hendi er unnt að setja aukinn kraft í verkefnin, efla sveigjanleika og samhæfingargetu og koma í veg fyrir skörun á stefnumótun og framkvæmd. Þá er einnig dregið úr óhagræði og tvíverknaði í rekstri og stjórnun …“

Þetta er ítarlegur rökstuðningur. Ég get alveg skilið að menn telji óbreytt fyrirkomulag hugsanlega betra og menn hafa rökstutt það. Hér er þó ítarlegur rökstuðningur, af því að menn eru alltaf að kalla eftir því í umræðunni að engin rök sé fyrir þessu og kalla (Forseti hringir.) eftir að menn komi hingað í umræðu. Hvað segir hv. þingmaður um þessi rök?