145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:06]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Varðandi það af hverju málið hafi verið afgreitt úr nefnd þá taldi meiri hluti hv. utanríkismálanefndar að málið hefði fengið mjög góða umfjöllun á síðasta þingi. Ég dreg það ekkert í efa og tel að svo hafi í raun verið. En ég sem nýr nefndarmaður hefði gjarnan viljað fá meiri tíma til þess að setja mig inn í málin. Það var vísað til þess að fyrir lægju umsagnir frá síðasta ári og það er alveg rétt, en ég tel engu að síður að ég sem nýr nefndarmaður verði að reyna að setja mig vel inn í málin. Ég skal alveg viðurkenna það að sérstaklega þegar ég hef stórar efasemdir um að málið leiði til góðs þá finnst mér ég hafa enn ríkari skyldur til þess að kafa djúpt ofan í mál.

Hv. þingmaður spurði einnig út í skilvirkni og hagkvæmni, það eigi í rauninni engin bein hagræðing að verða af málinu en ef hún verði þá eigi hún að fara beint inn í málaflokkinn og hvort ég treysti því að svo muni verða. Ég veit það ekki. Jú, örugglega, ef einhver hagræðing verður þá þarf kannski ekki að draga í efa að hún fari inn í málaflokkinn. En það sem mér finnst vera stóra spurningin sem eftir stendur það er einmitt það sem hv. þingmaður benti á, hvort ráðherrann vilji ekki geta haft puttana meira í því í hvað sú hagræðing verði notuð eða þeir auknu fjármunir sem í framtíðinni vonandi verða settir til (Forseti hringir.) þróunarsamvinnu. Það er það sem ég tel stóra málið, það er meiri möguleiki á pólitískum afskiptum.