145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Örstutt vegna þess sem kom fram í ræðu hv. þingmanns um umfjöllun í utanríkismálanefnd, þá held ég að það sé rétt að halda því til haga að mér telst til að áður en þetta mál kom til umfjöllunar á þessu þingi hafi það verið rætt í þingsal í 22 klukkustundir. Að viðbættum þeim tíma sem við höfum rætt það hér í dag og í gær telst mér til að við séum að nálgast 30 klukkustundir sem við erum búin að ræða það. Ég get ekki alveg tekið undir að málið sé lítið rætt. Að auki hefur málið verið rætt og tekið fyrir á 12 fundum utanríkismálanefndar. Ég veit að einhverjir gerðu það að umtalsefni hér í ræðum, ekki endilega síðasti hv. þingmaður en það hefur umtalsvert verið gert, að málið hefði ekki verið nægilega rætt í utanríkismálanefnd. Allir gestir sem hv. þingmenn óskuðu eftir í þessari umferð voru fengnir til utanríkismálanefndar — allir. Þegar málið var tekið þaðan út var sátt um að taka það út. Það var einnig gert núna. Ég veit að hv. þingmaður getur tekið undir það með mér.

Málið var sent til umsagnar allra þeirra sem höfðu leyfi til þess að gefa umsagnir síðast, meira að segja þeirra sem ekki höfðu séð ástæðu til að gefa umsagnir á síðasta þingi. Það var allt gert samkvæmt bókinni til að tryggja að þingmenn hefðu allar upplýsingar. Þess vegna gáfum við okkur góðan tíma til þess að fara yfir málið og ræða það.

Eins og hv. þingmaður nefndi en hún sagði eitthvað á þá leið að eftir umfjöllun í nefndinni hefði hún verið enn sannfærðari, þrátt fyrir þá miklu umfjöllun, að hún væri andsnúin málinu. Ég var enn sannfærðari um það að ég væri hlynnt málinu eftir umfjöllunina. Ég held við séum, virðulegur forseti, stödd á þeim stað í þessu máli að það sé næstum því sama hversu marga klukkutíma við ræðum það fram og til baka því að við erum einfaldlega ósammála. Við erum einfaldlega ósammála eftir þessa löngu umfjöllun, bæði á þessu þingi og fyrra þingi og í utanríkismálanefnd á því þingi og aftur núna.