145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:19]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að hluti af þeim ógöngum sem Alþingi Íslendinga er í og hluti af því hversu litla trú þjóðin hefur á störfum okkar hér sé sá skilningur sem við leggjum oft í lýðræðið, þ.e. við greiðum bara atkvæði og meiri hlutinn ræður og kannski sérstaklega í málum sem er mikill ágreiningur um. Ég stend við það sem ég sagði að ég held að við komumst ekkert áfram hérna með málið í umræðu í þingsal, en í nafni lýðræðisins ættum við að reyna að ná einhverri sátt þar sem allir þyrftu að vera tilbúnir til þess að gera málamiðlanir og reyna að vera svolítið lausnamiðaðir. Ég held að það sé hægt að ná sátt og koma málinu þannig við að allir geti vel við unað en þá verðum við að bakka aftur. Við verðum að setjast aftur með hæstv. utanríkisráðherra við borðið og leggjast hreinlega betur yfir málið. Er hægt að hugsa þetta á annan hátt?

Ég held að það sé engum til sóma að taka mál sem svona mikill ágreiningur er um og láta bara hreinan meiri hluta ráða, þó svo að það sé alveg löglegt. Það er það sem við gerum alltaf hérna en ég held að það sé ekki ráðlegt í því gríðarlega mikilvæga máli sem þróunarsamvinna er fyrir fátækt fólk úti í heimi eins og því er fyrir komið. Mér finnst að okkur beri hreinlega skylda til þess að leggja svolítið extra á okkur og útkljá málið ekki bara með einföldum meiri hluta á Alþingi.