145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:55]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Það gleður mig svo sannarlega að heyra að við tölum greinilega nokkuð sömu röddu í þessu og höfum svipaðar áhyggjur. Ég vil líka taka undir það sem vekur manni enn meiri ugg og hv. þingmaður sagði í ræðu sinni, að metnaður núverandi ríkisstjórnar fyrir þróunarsamvinnu og þeim peningum sem er varið til hennar eykur svo enn meira á þennan ugg.

Annað sem er í rauninni helstu rökin sem hæstv. ráðherra hefur notað í máli sínu og einstaka þingmenn sem hafa tekið til máls, til að mynda hv. þm. Brynjar Níelsson í andsvari áðan, er umræða um samlegðaráhrif og hagkvæmni. Þetta eru orð sem eru nefnd en án þess þó að dæmi fylgi, konkret dæmi um það hvar þessi samlegðaráhrif og hagkvæmni eru.

Það segir í greinargerð með frumvarpinu að með því að færa framkvæmdina á eina hendi sé hægt að einfalda skipulagið og hægt sé að ná betri heildarsýn yfir málaflokkinn og stefnumótun með því að hafa einungis einn ábyrgðaraðila.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Á þetta þá ekki við um allar stofnanir? Gætum við ekki notað nákvæmlega sömu rök til þess að einfalda málið? Hættum að hafa stofnanir, látum bara ráðuneytin sjá um þetta. Er í rauninni eitthvað annað sem gildir í þessu máli en í öllum öðrum málum?