145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:59]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mig langar að ræða um fundarstjórn forseta. Ég var að kalla eftir því hvort það yrði fundur á morgun í fjárlaganefnd, það var búið að boða að svo yrði, þar sem tillögur ríkisstjórnarinnar fyrir 2. umr. yrðu kynntar. Starfsáætlun þingsins hljóðar upp á 11 þingdaga, héðan í frá, þannig að það er ljóst að það er ekki mikill tími. Formaður fjárlaganefndar segir í morgun að það sé ljóst að umræðan fari ekki fram í næstu viku eins og til stóð.

Nú er klukkan fimm á fimmtudegi, framsóknarmenn margir hverjir komnir út í hérað, búnir að vera á ferðalagi þar sem þeir eru að sinna sínu kjördæmi. Ég mundi gjarnan vilja gera slíkt hið sama á morgun og mér þykir allsendis ótækt að klukkan fimm á fimmtudegi liggi ekki fyrir hvort og hvenær það verður fjárlaganefndarfundur. Mér finnst það algjörlega óviðunandi, virðulegi forseti, og ég óska eftir því að tekið verði á þessu.