145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:13]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er venjan á Alþingi að þingflokksformenn hittast á mánudögum og fari yfir dagskrá þingsins og plönin fram undan og horfi á starfsáætlunina. Það sama gera forsætisnefndarmenn á sínum fundi. Það eru tilteknar stofnanir þingsins sem þurfa að njóta lágmarksvirðingar. Við þurfum að gera ráð fyrir því að þessar stofnanir og þessir fundir hafi ákveðna stöðu og hafi ákveðnu hlutverki að gegna. Það er algjörlega óboðlegt með öllu að það sé að endurtaka sig trekk ofan í hvað að formaður fjárlaganefndar sé með einhvern sérstakan fréttatíma úti í bæ um að þetta séu bara einhvers konar grínfundir, og forseti þingsins láti bjóða sér það að standa hér upp og taka undir það að starfshættir þingsins sé í molum vegna yfirlýsingar hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur.

Staðan er orðin þannig að minni hlutinn heldur uppi þingstörfum á meðan framsóknarmenn eru úti um allt land að halda fundi með sínu fólki. (Forseti hringir.) Þetta gengur ekki lengur, þetta er orðið svo niðurlægjandi fyrir Alþingi. Það er lágmark að ljúka umræðunni núna og halda fund með þingflokksformönnum til þess að fara yfir þá stöðu sem upp er komin. Þetta er algerlega til skammar, virðulegi forseti.