145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:19]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég hef undanfarinn sólarhring óskað eftir því að gert verði hlé á þessari umræðu til að hægt væri að fá hæstv. utanríkisráðherra til fundar við þingið. Ég hef lagt þessar óskir mínar fyrir hæstv. forseta. Nú sé ég að ég hef verið að sækja í geitarhús til að leita ullar. Auðvitað átti ég ekki að gera það og kannski skýrir það það að ég hef engin svör fengið.

Ég sé það núna að vitaskuld hefði ég átt að beina ósk minni til hv. formanns fjárlaganefndar, Vigdísar Hauksdóttur. Hún hefur hvort eð er tekið að sér að stýra þinginu og gefur út tilskipanir um það með hvaða hætti þingið ætlar að vinna störf sín. Ég bið í reynd bæði hana og hæstv. forseta afsökunar á mistökum mínum.

Ég ætla samt sem áður, herra forseti, að leyfa mér að ítreka ósk mína og kannski gæti hæstv. forseti gert mér þann greiða, af því að ég sé ekki hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur í þinginu, að koma óskum mínum til hennar. Svo sjáum við til hvort hún gefur út tilskipanir um það á morgun eins og eitthvað annað. Ef svarið verður jákvætt er ég viss um það, a.m.k. ef hún fær þann rökstuðning sem ég hef flutt fyrir bón minni og af því að hún er viti borin vera þrátt fyrir allt, að hún fallist á það og málinu verði frestað.