145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:21]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Umræddur hv. þm., Vigdís Hauksdóttir, sem hefur, eins og kom fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, greinilega tekið að sér dagskrárvald, flutti ræðu hér um störf þingsins um daginn um framlagningu stjórnarmála. Með leyfi forseta, sagði hv. þingmaður:

„Ég ætla að taka upp hanskann fyrir forseta. Mér sýnist þingmenn vera að lýsa miklu ástandi sem er á einhvern hátt réttlætanlegt því ég hef talað fyrir því og talaði um það víða að það voru algjör mistök að vera að flýta þingsetningu samkvæmt þingskapalögum. Það er búið að hræra svo mikið í þingskapalögum undanfarin fimm til tíu ár að þingið er vart starfhæft. Ég hef til dæmis aldrei skilið af hverju fallið var frá því að fyrsti þingdagur væri 1. október ár hvert. Ég bara skil það ekki, sem birtist svo í því að það eru ekki næg verkefni fyrir þingið.“

Þetta eru orð hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur. Svo segir hún í lokin um óvissuna: „Þetta sýnir að þingið er komið í algjöra óvissu“ — og forseti hringdi þá á hana en hún hélt áfram — „og við þetta verður ekki vel við unað, virðulegi forseti, og tek ég undir með stjórnarandstöðunni í þetta sinn.“ Tilvitnun í hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur lýkur.

Hvað segir hv. þingmaður og fyrrverandi formaður Lögmannafélagsins, Brynjar Níelsson, um þetta atriði?