145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:22]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég hef komið óskum mínum á framfæri um það að við látum staðar numið í umræðunni um Þróunarsamvinnustofnun og þarf engu við það að bæta. En ég tel að það sé ekki undan því vikist að við tökum upp til umræðu á vettvangi forsætisnefndar og kannski formanna þingflokka túlkun formanns þingflokks framsóknarmanna hér í dag um hvaða skyldur ráðherrar beri gagnvart Alþingi. Ef það á að fara að festast í sessi sá skilningur á stjórnskipun landsins og þingsköpum að skyldur ráðherra snúi að því einu að reka hérna inn nefið og mæla fyrir frumvörpum sínum og síðan hafi þingið engar kröfur á það að þeir mæti og svari fyrir mál sín þá er orðið illt í efni, segi ég bara. Ef það er þannig að jafnvel kjörnir þingmenn sem jafnframt eru ráðherrar hafi ekki þingskyldum að gegna, þeir hafi enga upplýsingaskyldu við þingið, þeim beri engin skylda til að koma hingað og svara fyrir mál sín ef eftir því er óskað þá er mikið nýtt að gerast á Alþingi Íslendinga og af sem áður var þegar ráðherrar töldu það sjálfsagðan hlut að koma jafnt á nóttu sem degi ef eftir því var óskað til að standa fyrir máli sínu. (Forseti hringir.) Og það er dapurlegt að upplifa þá þróun í höndum á einhverjum sem ekki vita betur, sem eru að reyna að búa til þessa mynd og túlkun á málum hér.