145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:23]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég hef lagt til að hrossakaupsmálin tvö, annars vegar óskabarn Sjálfstæðisflokksins um opinber fjármál, sem er runnið undan rifjum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eins og við þekkjum, og óskabarn Framsóknarflokksins um Þróunarsamvinnustofnun, verði bæði lögð til hliðar og við búum í haginn fyrir það mál sem mestu skiptir að fá vandaða umræðu um fyrir hátíðar, það eru fjárlögin.

Við fengum mjög upplýsandi umræðu í dag um einkavæðingu bankanna og áform Sjálfstæðisflokksins og ráðherra Sjálfstæðisflokksins að hefja sölu á hlut ríkisins í Landsbankanum, ekki aðeins hér heima heldur erlendis, á kjörum sem eru líkleg til að verða eins konar brunaútsala. Á sama tíma og þessi hæstv. ráðherra og flokkur hans tala gegn afskiptum ríkisins og aðkomu að bönkum (Forseti hringir.) á að fara að setja 2,3 milljarða í Asíubanka á vegum ríkisins. Er þetta ekki hlutur sem krefst þess að við ræðum hann í meira en í hálfa klukkustund, eins og gert var í dag?