145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:25]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrst langar mig aðeins að koma inn á þá stöðu sem þingið er í. Það er svolítið undarlegt núna að vera að taka til máls annan daginn í röð um þetta mál og í bæði skiptin hefur verið óskað eftir því á undan að ráðherra sé viðstaddur og hlýði á þær spurningar sem við höfum borið upp.

Ég lagði fyrir hann spurningar í 1. umr. Hann svaraði engri þeirra. Ekki einni einustu. Það voru lagðar fyrir hann spurningar í gær og hann var ekki á staðnum. Það hefur ekki skilað sér til hans. Hann er ekki hér að svara þeim. Enginn hefur svarað þeim, ekki heldur formaður nefndarinnar. Mér finnst þetta ekki hægt. Ég vil þess vegna ítreka þá ósk að við fáum ráðherrann til að koma hingað og gert verði hlé á umræðunni þangað til. Annars komum við upp aftur og aftur og spyrjum sömu spurninganna þangað til við fáum einhver svör. Það er bara þannig. Menn eiga að manna sig upp í að eiga samtal við okkur um þessi mál.

Ég hef líka áhyggjur af því í hvaða stöðu þingið er þegar ellefu þingdagar eru eftir samkvæmt starfsáætlun. Við eigum eftir að fara í gegnum 2. umr. fjárlaga og 3. umr., 2. umr. fjáraukalaga og 3. umr., ræða bandorminn í 2. og 3. umr. og síðan eru ráðherrarnir líka úti í bæ að boða það að fara að rúlla hér inn frumvörpum og klára unnvörpum fyrir jól. Ég verð að segja að annarri eins óstjórn á þingi hef ég ekki orðið vitni að. Það sem maður veltir fyrir sér er að af þeim 129 málum sem boðuð voru á þessu haustþingi hafa ráðherrar skilað inn 20–30 og þrír ráðherrar, félags- og húsnæðismálaráðherra, menntamálaráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hafa skilað núll málum. Reyndar held ég að menntamálaráðherra hafi skutlað inn tveimur höfundaréttarlögum. Það er allt og sumt.

Ráðherrar skila ekki boðuðum málum inn í þingið. Þá veltir maður fyrir sér hvort þarna sé á ferð haugaleti eða algert hugmyndaleysi. Menn viti ekki hvernig þeir eigi að ráða fram úr þessum málum. En þá á heldur ekki að boða þau vegna þess að hér eru gerðar ráðstafanir í takt við það sem boðað er. Mér finnst að þessir ráðherrar verði að standa sig betur því að þeir hafa einfaldlega ekki staðið sig í stykkinu. Það er ekki boðlegt að mínu mati að fara síðan á fundi utan þessa húss og boða að troðið verði í gegnum þingið fleiri, fleiri málum á mettíma. Það er ekki hægt. Þetta virkar ekki þannig. En hugarheimur þessara ráðherra virðist vera þannig að með 38 manna meiri hluta geti þeir leyft sér allt. Ætla þingmenn stjórnarflokkanna að láta þetta yfir sig ganga? Að hér séu kynnt fyrir þeim mál og sagt: Við þurfum þau fyrir hádegi á föstudaginn, keyrum þetta í gegn? Þannig er verið að vinna hér og með þetta mál líka. Mál eru keyrð í gegn. Þau koma illa unnin frá nefnd. Stutt er á milli umsagnarfrestar og þar til málin eru rifin út. Þetta verður svona og enn verra þegar nær dregur þinglokum. Þetta er vandræðalegt fyrir þessa ríkisstjórn en aðallega fyrir þingið, því að við eigum að setja fótinn niður og mótmæla. Við eigum ekki að afgreiða málin í neinum flýti.

Að þessu máli hér. Ég verð að segja enn eina ferðina að ég er óskaplega döpur yfir því hvaða þróun hefur átt sér stað í málinu því að það er eins og menn hafi samið um að keyra málið í gegn. Það var ekki tekin nægileg efnisleg umræða um málið. Við höfum ekki fengið svör eftir að hafa ítrekað óskað eftir því við stjórnarþingmenn að þeir að minnsta kosti svari hvort þeir séu til umræðu um að bíða eftir jafningjaúttekt DAC sem er á næsta ári. Hvað í þessu máli veldur því að menn flýta sér svo óskaplega að þeir geta ekki beðið eftir jafningjaúttekt frá DAC? Þetta er fagstofnun utan frá og menn ætla að afþakka það. Nei, takk, við vitum þetta allt, við þurfum enga rýni utan frá á gjörðir okkar og verk. Hver afþakkar svona? Við hefðum tekið þessu fegins hendi öllu saman ef okkur hefði staðið slíkt til boða á síðasta kjörtímabili. Það er gulls ígildi að fagaðilar annars staðar frá séu tilbúnir að fara yfir það sem við gerum og koma með tillögur til úrbóta. En nei, þessi utanríkisráðherra veit þetta svo miklu betur og það er best að trukka þessu í gegn og gera það þannig að menn í raun leggja niður Þróunarsamvinnustofnun og leggja niður faglega umgjörð sem verið hefur um þróunarsamvinnu af Íslands hálfu. Svo tala menn eins og bara verið sé að leggja niður einhverja stofnun. Það er verið að setja í óvissu meðferð fjármuna sem fara til fólks sem þarf mikið á þeim að halda, fátækasta fólksins á þessari jörð. Það hefur verið farið yfir hver staða þeirra hópa er sem við erum að reyna að veita stuðning með þróunaraðstoð. Hún er ekki góð. Hver erum við svo hér? Af því að við teljum ágætt að hafa þessa fjármuni inni í ráðuneyti ætlum við að slaufa Þróunarsamvinnustofnun sem hefur verið að gera góða hluti, er með skýra umgjörð, gagnsæi í því hvernig farið er með fjármuni hennar, og grauta því saman við starfsemi ráðuneytisins. Er það stefna þessarar ríkisstjórnar? Er það stefna stjórnarflokkanna? Ógagnsæi og að grauta saman verkefnum, eftirliti og framkvæmd? Ríkisendurskoðun hefur margoft komið með athugasemdir við það þegar talið er að framkvæmd og eftirlit séu á einni hendi. Finnst þeim sem vilja fara vel með almannafé allt í lagi að menn grauti þessu saman inni í einu ráðuneyti?

Það er enginn munur á því að flytja Þróunarsamvinnustofnun í utanríkisráðuneytið og ef mönnum hefði dottið í hug að flytja Vegagerðina í innanríkisráðuneytið. Þarna er fagleg stofnun sem fer með framkvæmd á verkefnum fyrir hið opinbera með gagnsæjum og skýrum hætti. Síðan er ráðuneytisins að fylgja því eftir að það sé gert almennilega. Það getur líka vel verið að þingmönnum stjórnarflokkanna þyki Vegagerðin miklu merkilegri og mikilvægari málaflokkur. Er það það sem þetta snýst um? Menn vilja ekki sýna þróunarsamvinnu þá virðingu sem okkur ber að sýna henni. Hún er ótrúlega mikilvæg. Þær örfáu krónur sem við setjum hlutfallslega í þróunaraðstoð bjarga mannslífum, í löndum þar sem innviðir eru svo veikir að 25% barna eru látin fyrir fimm ára aldur. Það er sá veruleiki sem við setjum fjármuni í. Okkur ber skylda til þess. Ef við erum stolt alvöruþjóð tökum við þátt í alvöruþróunaraðstoð. Grautum ekki þeim verkefnum inn í ráðuneyti þar sem ógagnsæi um meðferð fjármuna verður augljós niðurstaða.

Ég vil því enn og aftur leggja fram þessar fyrirspurnir. Í fyrsta lagi: Hvað liggur svona mikið á? Hvaða gríðarlegu hagsmunir eru undir sem valda því að menn ætla að trukka málinu í gegn á þennan hátt? Í öðru lagi: Eru menn til viðræðu um að bíða með þetta fram á næsta ár og fara vandlega og í sameiningu yfir jafningjamat DAC, þiggja utanaðkomandi rýni á það sem við gerum? Það gætu leynst góðar hugmyndir og tillögur þar um framhaldið, það gæti gerst. Af hverju þiggjum við það ekki? Það er þetta sem ég skil ekki. Mér finnst þetta svo óábyrgt. Ég held að einhver þvermóðska sé komin í mannskapinn, nema þetta snúist um hrossakaup eins og farið var yfir í gær. Ég held að við ættum að reyna að spóla aðeins til baka og ná samstöðu aftur um þennan mikilvæga málaflokk. Á vakt núverandi utanríkisráðherra og formanns utanríkismálanefndar er verið að hleypa umræðunni um þróunarmál í algert pólitískt uppnám. Er það þar sem við viljum hafa þennan viðkvæma og mikilvæga málaflokk? Ég hélt ekki. Við náðum þverpólitískri samstöðu árið 2008 sem þessi ríkisstjórn, sem þessi stjórnarmeirihluti með þeim sem ég hef talið upp hér í broddi fylkingar, er að sprengja í loft upp.