145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:38]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að draga þetta fram. Þessi stofnun hefur verið fyrirmyndarstofnun hvað það varðar. Hún hefur ekki farið fram úr fjárlögum heldur haldið sig innan ramma. Hún hefur verið með skýr verkefni og sinnt þeim vel, það vel að eftir því hefur verið tekið. Eitt af því sem kom fram hjá þessari undirstofnun OECD þegar við fengum þar sæti var að það var sérstaklega tekið eftir því hve vel Þróunarsamvinnustofnun hafði tekist að valddreifa innan sinnar starfsemi, þ.e. að valddreifingin var með þeim hætti að sendiskrifstofurnar sem við erum með í þeim löndum sem hv. þingmaður nefndi hafa töluverðan sveigjanleika til að vinna með heimamönnum í því hvernig best sé að sinna verkefnum og nálgast þau þar á svæðinu. Það er einmitt það sem góð þróunaraðstoð gengur út á, innri vöxt samfélaganna þar sem tekið er tillit til samfélagsgerðarinnar. Ekki þessar gömlu pakkalausnir þar sem menn komu með verksmiðjur og verkefni utan frá og dembdu því inn í samfélag án þess að það passaði inn í nokkurn skapaðan hlut. Það er einmitt þetta sem Þróunarsamvinnustofnun hefur tekist svo vel, að vinna með samfélögunum sjálfum, setja fjármuni í verkefni sem stuðla að innri vexti og uppbyggingu með heimamönnum. Þau hafa fengið sérstakt lof fyrir þetta.

Ég tek undir með hv. þingmanni að mér finnst skrýtið þegar ekki er verið að gagnrýna starfsemina og ljóst er að hún skilar árangri að mönnum sé svona umhugað að leggja stofnunina niður. Sá farvegur sem ég sæi fyrir mér að málið ætti að fara í er að menn ættu, ef þeir hefðu einhvern smá vilja til þess, að setjast niður með okkur og reyna að finna lausn á þessu. (Forseti hringir.) Hún gæti til dæmis verið sú að bíða eftir DAC-skýrslunni og láta síðan þverpólitíska nefnd klára málið.