145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:55]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að þakka öllum hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umfjöllun um málið, enda er þetta eitthvað sem skiptir miklu. Og ekki nóg með það, þetta skiptir miklu máli fyrir fleiri en Íslendinga þar sem um er að ræða þróunarsamvinnu og þróunarsamvinna stuðlar að heimsfriði. Þannig eru Íslendingar að reyna að taka þátt í einhvers konar alþjóðasamstarfi sem er mjög mikilvægt, enda er ekki langt síðan Ísland var mjög vanþróað ríki. Við höfum mikið til málanna að leggja, bæði varðandi mannauð og ýmislegt annað.

Fram kemur í greinargerð að heildarlög voru sett um opinbera þróunarsamvinnu íslenskra stjórnvalda árið 2008 þar sem þá varð talsverð breyting á fyrirkomulaginu. Á þeim tíma, og fyrir þann tíma reyndar líka, var framkvæmdin á þróunarsamvinnu á tveimur höndum. Eftir það hefur verið mikill þrýstingur, það virðist ávallt hafa verið mikill þrýstingur innan ráðuneyta og ég skil ekki alveg af hverju hann kemur til. En svo virðist vera að hann komi frá ráðuneytinu, ekki kemur hann frá Þróunarsamvinnustofnun Íslands, að þau þar vilji endilega fara inn í ráðuneytið þar sem það væri frekar andstætt almennri skynsemi, mundi ég halda, að vilja leggja sína eigin stofnun niður. Það er því einhvers staðar í ráðuneytinu sem sú þörf kemur til að fá Þróunarsamvinnustofnun inn. Mér finnst í greinargerðinni og nefndarálitinu ekki koma nógu skýrt fram af hverju sú þörf sprettur. En að sama skapi er búið að gera úttekt og það sem mér finnst mjög leiðinlegt er hvernig greinargerðin við frumvarpið er. Er það hvað þetta eru einhliða upplýsingar? Það eru til miklu ítarlegri umsagnir sem hægt er að vinna úr. Það hefði verið hægt að leita til fleiri aðila til að fá álit um hvort færa eigi stofnunina til ráðuneytisins eður ei. Í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Meginniðurstaða skýrslunnar er „að samhæfing allra aðila sem starfa á vegum íslenskra stjórnvalda að þróunarsamvinnu eigi að vera á einum stað. Eingöngu þannig sé hægt að hámarka líkur á mestum árangri með mestri skilvirkni“.“

En hvar er það sagt, á hvaða stað? Hvar kemur sú niðurstaða, hvenær kemur sú niðurstaða? Hver ákvað það að þetta væri betur sett utan ráðuneytisins? Eða innan ráðuneytisins? Það virðist ekki koma hérna fram.

Þórir Guðmundsson, sá mæti maður, sem skrifaði skýrslu um Þróunarsamvinnu Íslands segir ekki neitt um að þetta eigi frekar heima í ráðuneytinu. Í skýrslunni er bara sagt að betra sé að þetta eigi heima í þeim stað, sem er að miklu leyti mjög skynsamleg niðurstaða, enda er ekki gott að hafa hlutina endilega á mörgum stöðum. Hins vegar þarf þessi eini staður ekki endilega að vera innan ráðuneytisins.

Sömuleiðis hefur verið sýnt fram á að Þróunarsamvinnustofnun Íslands hafi unnið vel. Niðurstöður úttektarinnar voru jákvæðar, segir í greinargerðinni, og þróunarsamvinna Íslands byggðist á traustum og faglegum grunni. Einnig segir: „Skýrslan hafði að geyma ýmsar ábendingar um atriði þar sem gera mætti betur, ýmist á sviði stefnumótunar, framlaga eða fyrirkomulag.“ Þetta er mjög almennt orðað. Hér er ekki verið að fella neina áfellisdóma yfir núverandi fyrirkomulagi heldur er þetta svona frekar almennt. Hérna er bara verið að tala almennt um það og ekki er verið að leggja dóma á það að með því að færa þetta inn í ráðuneytið, þá verði fyrirkomulagið allt í einu betra, að stefnumótunin yrði betri með því að vera í ráðuneytinu. Mér finnst það ekki koma nógu skýrt fram.

Í þriðja lagi kemur fram í greinargerðinni að endurskoða þyrfti það hvort skipulag og fyrirkomulag þróunarsamvinnu Íslands væri enn hentugt. En að sama skapi er ekkert hér sem sýnir eða rök færð fyrir því að þetta eigi betur heima í ráðuneyti en utan þess. Það er bara sagt að við þurfum að endurskoða hvernig Þróunarsamvinnustofnun Íslands vinnur. Það er ekkert að því. Hins vegar virðist niðurstaðan vera sú að starfsemin eigi að fara inn í ráðuneytið þótt engin rök útskýri forsöguna, það segir ekkert til um það hvort þetta eigi heima í ráðuneytinu eða ekki.

Ég hef miklar áhyggjur af því að færa starfsemina til ráðuneytisins. Hér segir, með leyfi forseta:

„Starfsmenn flytjast við þessa breytingu í starfi frá ÞSSÍ til ráðuneytisins, en því fylgja óhjákvæmilega breytingar á daglegum störfum allra þeirra er starfa á sviði þróunarsamvinnu hjá ráðuneytinu.“

Þetta er mjög alvarlegt mál. Þarna er verið að breyta því hvernig Þróunarsamvinnustofnun Íslands starfar — „… óhjákvæmilega breytingar á daglegum störfum allra þeirra er starfa á sviði þróunarsamvinnu hjá ráðuneytinu.“ Þetta er stór breyting. Og hver mun þá framtíð þróunarsamvinnu vera? Ég bara spyr út af því að þótt hér segi að ekki sé „um að ræða breytingar á stefnu, markmiðum eða verklagi í þróunarsamvinnu Íslands,“ þá mun það samt einhvern veginn breytast. Er þetta ekki svolítið mótsögn? Ég skil þetta ekki alveg.

Mér finnst þetta vera mjög slæmt þar sem um fólk er að ræða. Nú er mikið talað um atgervisflótta ungs fólks. Fólk er að flýja héðan úr landi af því að það fær ekki vinnu við sitt hæfi. Hérna erum við með eitthvað sem hægt er að vinna hvar sem er á landinu. Það gæti verið unnið á Vestfjörðum eða Austfjörðum eða hver veit hvar, uppi á Vatnajökli þess vegna, þar sem komið er gott 3G samband. Hins vegar er einhvern veginn verið að taka þetta út og gera starfið ekki jafn spennandi. Þetta verður ráðuneytisstarf. Starfssvið þeirra starfsmanna mun breytast þannig að fólk sem er búið að sérhæfa sig í þróunarsamvinnu, búið að sérhæfa sig í að vinna þetta sértæka verk, því að þetta er fagstofnun, verður allt í einu orðið ráðuneytisstarfsmenn með pólitíkinni sem býr þar að baki.

Mér finnst málið að öllu leyti mjög einkennilegt, sérstaklega af því að reynt hefur verið að fá þetta í gegn í töluvert langan tíma, eða um það leyti sem ég var að byrja að læra ensku í utanríkisráðherratíð Davíðs Oddssonar og það er bara mjög langt síðan ef ég má benda á það. Einhvern veginn kemur þetta alltaf aftur og ég skil ekki af hverju. Það kemur heldur ekki nógu vel fram af hverju það er.

Það fyrsta sem mér dettur í hug er náttúrlega það að um valdþjöppun sé að ræða. Þarna er í gamla höfðingjasamfélagi Íslands einhvern veginn verið að seilast aftur í það sem var verið að dreifa út um allt. Eitt af því sem við höfum verið að reyna að gera sem samfélag, eftir því sem við þroskumst sem pólitískt samfélag og sem efnahagslegt samfélag, þá erum við að reyna að dreifa ábyrgðinni, eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir minntist á í fyrri ræðu sinni, að þegar við erum með valddreifingu í samfélaginu, þegar stofnanir eru með skýr og afmörkuð verkefni þá er auðveldara að hafa eftirlit með þeim. Það sama á við um Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Þetta er spurning um valdajafnvægi milli fagstofnana, ríkisvaldsins og löggjafarvaldsins og eftirlit þar með.

Ég sé ekki hvernig verið er að tryggja gagnsæi með því að færa starfsemina í ráðuneytið. Ég sé ekki hvernig það á að auka afköst stofnunarinnar. Það eru ákveðin verkefni sem hennar bíða og mikilvægt er að hún fái frið frá pólitísku amstri dagsins til að leysa þau. Með því að flytja starfsemina inn í ráðuneytið og bjóða, eins og ég hef heyrt, starfsmönnum ÞSSÍ að koma í ráðuneytið og vinna þar á einhverju þróunarsamvinnusviði þá er náttúrlega verið að breyta öllu starfsumhverfi. Og það er alveg spurning hvort við viljum það. Mundum við sætta okkur við það ef Námsgagnastofnun færi undir menntamálaráðuneytið þar sem pólitík í daglegu amstri mundi ráða því hvort tala mætti um bláa hjólið eða rauða hjólið eða græna hjólið? Því að allt í einu þegar við erum að búa til barnabækur fyrir 6. bekk eða 6 ára bekk eða þegar við setjum einhverja liti á hjólið, þá er það allt í einu orðin pólitík af því að ráðuneytin eru flokkspólitísk og þau verða það, og það mun alltaf breytast.

Við kjósum á fjögurra ára fresti og ráðherrar sitja hér inni fyrir hönd ákveðinna flokka í umboði Alþingis, þannig að ráðuneytin eru óhjákvæmilega og verða óhjákvæmilega alltaf flokkspólitísk. Þróunarsamvinna er líka pólitískt mál. Þetta er sem sagt spurning um það hvort við viljum hafa þetta flokkspólitískt málefni eða hvort við viljum hafa þetta faglegt og pólitíkina sem fylgir því. Það er alþjóðapólitík og skrifstofupólitík og ég veit ekki hvað og hvað sem fylgir því.

Breytt fyrirkomulag mun færa Þróunarsamvinnustofnunina nær því að vera flokkspólitískt mál og það sést hér. Þetta er spurning um hvort við viljum að hún verði flokkspólitískt mál. Hér stend ég og mæli gegn því, einfaldlega út af því að mér finnst ekki að þróunarsamvinna eigi að vera flokkspólitísk. Slíkt á að vera þverpólitískt mál og á að vera eitthvað sem er unnið í sátt og samlyndi. Þetta á ekki að vera eitthvað sem er bardagi milli bláa og rauða liðsins, Manchester United eða Liverpool, það er alger óþarfi. Þetta er spurning um frið og ákveðinn friður og gott starf hefur verið unnið í Þróunarsamvinnustofnun Íslands undanfarið.

Í greinargerðinni kemur fram að Þróunarsamvinna Íslands sé byggð á traustum og faglegum grunni. Ég skil ekki hvernig ráðuneytið komst í raun og veru að þeirri niðurstöðu og ég fórna hreinlega höndum þegar ég les þetta. Nú er þetta bara svona almenn kvörtun frá mér hvernig greinargerðir eru almennt unnar. Þetta er náttúrlega mikill texti en að sama skapi eru hér þrítekningar. Verið er að endurtaka sama hlutinn aftur og aftur með mismunandi orðalagi og ein heimild er fyrir því, eitt kennivald, til að leggja niður stofnunina. Það kallast ekki góð sagnfræðileg vinnubrögð eða góð vinnubrögð yfir höfuð. Það þarf að hafa þrjár óháðar heimildir sem sýna sömu niðurstöðuna eða alla vega að sýna fram á að stungið hafi verið upp á þessu fyrir mörgum áratugum síðan liggur við, og að skoðanir séu skiptar, því að það er staðreyndin. Við værum ekki hér ef þetta væri eitthvert mál sem væri ekki umdeilt. Þetta er umdeilt og er umdeilt af því að þetta er spurning um valddreifingu í staðinn fyrir valdþjöppun. Þetta er spurningin um hvort við viljum gamla Ísland þar sem höfðingjarnir réðu öllu, þar sem presturinn og höfðingjarnir og allir sem áttu titla réðu öllu og undirmenn þeirra fengu bara litla brauðsneið fyrir vinnuna sína, eða hvort við gefum valdið aðeins frá okkur. Mér finnst mjög mikilvægt að við dreifum valdinu. Með því að dreifa valdinu búum við ekki til stórar valdablokkir, þá erum við að brjóta þær niður og allir í samfélaginu hafa einhver völd, hafa eitthvað til málanna að leggja, hafa eitthvert andlit út á við til að sýna. Það er það sem mér finnst langmikilvægast þegar við tölum um Þróunarsamvinnustofnun Íslands, að við höfum andlit út á við sem hefur þennan fallega titil, ekki af því að fólk þurfi að vera í einhverjum titlaslag, heldur einfaldlega er þetta spurning um valddreifingu og að skýra valdmörk, þetta er spurning um að tryggja gagnsæi og spurning um valddreifingu.

Hæstv. menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson, tók þessa úttekt í utanríkisráðherratíð Davíðs Oddssonar og hann komst að allt annarri niðurstöðu en Þórir Guðmundsson. Það væri gaman að fá hann hingað í salinn til að ræða þetta frumvarp. Hann hefur ábyggilega margt til málanna að leggja, enda vandaður maður. Mér þykir einkennilegt að heyra hvernig Sjálfstæðisflokkurinn þegir þunnu hljóði í þingsal. Hann virðist vera búinn að sætta sig við að þetta sé tilvistin og svona sé framtíðin.

Það sem ég sakna líka einna hvað mest er að hafa ekki hæstv. utanríkisráðherra í salnum. Mér finnst það sárt einfaldlega vegna þess að við erum í mjög áhugaverðum efnislegum umræðum um valdsvið og völd í samfélaginu. Mér fannst mjög áhugavert það sem kom fram hér áðan þegar við ræddum fundarstjórn forseta að búið er að ná samkomulagi um þetta í ríkisstjórninni. Ríkisstjórnin ræður öllu. Ríkisstjórnin ræður ríkjum á Íslandi, ekki þingið. Einu völdin okkar, sem er eiginlega bara grátbroslegt í sjálfu sér, er að tala. Þetta er svona öfgamálfrelsi liggur við sem við erum með hérna að geta talað út í eitt, en það skiptir engu máli, þau þurfa ekkert að hlusta sem er svo sem alveg rétt. En hins vegar væri gott og svo gaman að geta átt efnislega rökræðu um það hvort stofnunin eigi heima í ráðuneytinu á grundvelli valdþjöppunar eða valddreifingar og hvort er mikilvægara í samfélaginu okkar þar sem við getum haft betra eftirlit, meira gagnsæi og skýrari valdmörk en ella.

Það væri gott, það væri frábært ef hæstv. utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, mundi sjá sér fært að mæta í þingsal. Nú höfum við oft beðið um að hann sé hér staddur en hann er hér ekki, sem mér finnst bara mjög erfitt, enda er þetta grundvallaratriði. Það er grundvallaratriði að ræða málið og ræða þessi valdmörk hvort sem fólki líkar það betur eða verr. Þróunarsamvinnustofnun Íslands vinnur gott starf og mikilvægt er að við viðurkennum það að hún hefur verið að vinna gott starf. Eins og komið hefur fram í ræðum hv. þingmanna hefur hún ekki verið að fara fram úr þeim fjárveitingum á fjárlögum sem henni eru ætlaðar. Ekki hefur komið fram neitt um það að samskiptavandamál séu á milli stofnananna, heldur er það bara praktískt atriði að betra er að hafa þetta á einum stað. En það kemur aldrei fram hérna að sá staður skuli vera ráðuneytið. Það kemur aldrei fram að eini staðurinn þar sem hægt er að tryggja að þetta fari almennilega í gegn og þróunarsamvinnan fyrir Íslands hönd muni brillera sé í ráðuneytinu.

Þvert á móti er ég í raun og veru búin að sýna fram á að með því að gefa Þróunarsamvinnustofnun Íslands afmarkað valdsvæði þar sem fólk getur unnið að heilindum og af fagmennsku þá höfum við búið til gott orðspor. Við erum búin að búa eitthvað til sem hægt er að líta til. Þetta er fyrirmyndarstofnun og mér þykir mjög leitt að sjá að verið er að leggja þá stofnun niður og færa hana í ráðuneytið. Mér þykir mjög leitt að starfsmenn sem hafa reynslu á sviði þróunarsamvinnu fari inn í ráðuneytispólitík í stað þess að einbeita sér að sínum málum þegar kemur að þróunarsamvinnu.

Samt sem áður er það raunin að á Íslandi, þrátt fyrir að samkvæmt stjórnarskránni sé þingræði, er það alvald ríkisstjórnarinnar í raun og veru sem ræður ríkjum. Hér eru mál ákveðin á ríkisstjórnarfundum, hvort þau fara í gegn eða ekki. Það er voða lítið sem óbreyttur þingmaður í minni hluta getur gert. Það er ekkert víst. Þrátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi þagað þunnu hljóði og maður heyrir vel hvað þeim finnst í raun og veru, þá er þetta pínlegt mál. Þetta er algerlega, gersamlega pínlegt mál fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ég mundi fagna því ef þeir kæmu og viðurkenndu það og sýndu að þeir væru stærri og meiri menn en þetta. Það kann að hljóma ankannalega en ég sakna þess að heyra ekki í Sjálfstæðisflokknum þar sem þeir hafa ábyggilega mikið til málanna að leggja og ekki síst hæstv. menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson, sem komst að allt annarri niðurstöðu en núverandi hæstv. utanríkisráðherra.

Þetta mál er spurning um að tryggja valddreifingu, spurning um að tryggja gagnsæi, spurning um að tryggja valdmörk og spurning um að komast til nýja Íslands en ekki til gamla höfðingjasamfélagsins.