145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:15]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er greinilegt að hv. þingmaður hefur lagt á sig að lesa málið og kynna sér það til þess að skilja þau rök eða órök sem lögð eru fram í því frumvarpi sem við ræðum hér. Ég verð að taka undir með hv. þingmanni að ég skil heldur ekki hvernig var hægt að komast að þeirri niðurstöðu að fara þá leið með Þróunarsamvinnustofnun sem lögð er til í frumvarpinu. Ég er nefnilega hjartanlega sammála hv. þingmanni um að þróunarsamvinna eigi ekki að vera flokkspólitískt mál. Í mínum huga snýst hún um það hvernig við sem rík þjóð getum lagt fátækum löndum lið á þeirra forsendum og hjálpað þeim þannig úr erfiðleikum og bætt hlutskipti fólksins sem þar býr. Um það á þróunarsamvinna að snúast fyrst og fremst.

Ég er sammála hv. þingmanni um að þróunarsamvinna eigi ekki að vera flokkspólitískt mál og mig langar að spyrja þingmanninn hvort hún sé ekki hrædd um að það sé einmitt verið að greiða leiðina til þess að svo verði með því að flytja starfsemina inn í ráðuneytið þar sem bent hefur verið á að gegnsæið er miklu minna og miklu erfiðara að fylgja því eftir í hvað fjármagnið fer, frekar en að hafa starfsemina í sérstofnun þar sem miklu auðveldara er að hafa eftirlitið. Er ekki hreinlega verið að gera þetta að pólitísku máli?