145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:27]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég svari spurningu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um hvernig sé að koma inn á þingið og að þetta sé málið og svona vinnubrögð stunduð: Satt best að segja kemur það mér nákvæmlega ekkert á óvart. Þetta er nákvæmlega það sem ég bjóst við. Ég verð að segja að ef vinnubrögðin hefðu verið vandaðri hefði ég kannski orðið meira hissa, en þetta er nákvæmlega sú sýn sem fólk hefur almennt af íslenskum stjórnmálum. Það eru einhliða útskýringar á því af hverju hlutirnir eiga að vera hinir eða þessir og það er nákvæmlega það sem við hjá Pírötum höfum verið að reyna að laga með því að taka umræðu um mál og reyna að skoða fleiri hliðar á þeim.

Hv. þingmaður nefnir greinargerðina með frumvarpinu. Þar er aldrei talað um hvernig þetta er gert annars staðar. Það er talað um eina skýrslu og það fer svolítið fyrir brjóstið á mér. Ég er sagnfræðingur og vil helst hafa þrjár heimildir fyrir öllu áður en ég fullyrði nokkurn skapaðan hlut og frumheimildir sömuleiðis. Þar er aldrei talað um hvernig þetta er gert annars staðar. Það kemur mér svolítið í opna skjöldu þegar hv. þingmaður segir að reynsla annarra þjóða af því að taka þróunarsamvinnustofnanir inn í ráðuneyti hafi verið nákvæmlega sú sem var rætt hér á undan, að þarna sé verið að bjóða heim freistnivanda þar sem viðskiptahagsmunir eru of ríkir. Og hvað gerist þá? Ætlum við að hætta að byggja brunna í Úganda eða hvar sem þá þarf af því að við viljum selja þeim fisk og það eru stríð? Það gengur ekki. Það er fyrir neðan allar hellur að bjóða upp á þessi tækifæri. Ég skil þetta einfaldlega ekki og þetta kemur mér virkilega á óvart. Hins vegar koma vinnubrögðin mér ekki á óvart.