145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:29]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ekki kemur mér á óvart þó að þessi nýi þingmaður sé hlessa yfir vinnubrögðunum. Ég er líka forviða yfir þeim. Þó hef ég setið hérna með þeim sem hafa verið hvað lengst á vellinum. Ég hef bara ekki séð þingmál af þessum toga áður. Ég man aldrei eftir því að menn hafi sett fram mál sem engin sátt er um, sem enginn stuðningur er við í stjórnarliðinu og sem enginn rökstuðningur liggur fyrir. Ég man aldrei eftir því að menn legðu fram mál sem væri í orði kveðnu gert til þess að auka möguleika á hagræði og hagkvæmni í rekstri stofnunar, en fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins segir algjörlega hreint út að það séu engar líkur á því að einhvers konar sparnaður náist. Það eru sem sagt hvorki fagleg né fjárhagsleg rök fyrir þessari sameiningu.

Ég tel að hv. þingmaður hafi lagt puttann vel á púlsinn þegar hún sagði að það hefði komið sér á óvart þegar hún las greinargerðina að sjá hana byggjast á margtekningu ákveðinna fullyrðinga sem engin rök eru fyrir. Hún sagði að tilteknar fullyrðingar hefðu verið þríteknar og það er algjörlega hárrétt. Það gengur aftur eins og draugur í gegnum alla greinargerðina að þróunarsamvinnunefnd OECD hafi bent á nauðsyn þess að breyta fyrirkomulagi þróunarsamvinnu á Íslandi. Þess sér hvergi stað í þeim 37 blaðsíðum sem er að finna í áliti þróunarsamvinnunefndar. Á þetta er sérstaklega bent í umsögn Alþýðusambands Íslands sem bendir á þetta sem rangfærslu. Það er ákaflega mikilvægt að það komi fram að rökstuðningurinn byggist annaðhvort á meðvituðum fölsunum ellegar misskilningi.

Það sem er miklu verra er að þegar maður les þetta sér maður að hvarvetna er verið að sáldra efasemdum um það góða starf sem þessi stofnun (Forseti hringir.) hefur unnið með því að ýja að því að þar sé um að ræða einhvers konar tvítekningu og að hún sé ekki í takt við utanríkisstefnu Íslands. Það eru engin dæmi um þetta og á hvaða sagnfræðiprófi í hvaða háskóla sem væri hefði þessi greinargerð fallið.