145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:33]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég beindi því talsvert fyrr í dag til forseta sem þá var á stóli að fara að upplýsa okkur um það hvað stæði til að halda þessari umræðu, mér liggur við að segja vitleysu, áfram. Það er fimmtudagur og þing að ljúka störfum. Samkvæmt venju hefur oft verið tekið tillit til þess að helgi er fram undan og ekki sé fundur mjög langt inn í kvöldið, m.a. vegna landsbyggðarþingmanna og annarra sem kunna að hafa skyldum að gegna og þurfa að leggja í ferðalög annaðhvort í kvöld eða snemma í fyrramálið. Mér finnst mjög tilgangslítið og í raun og veru ósanngjarnt að halda þessari umræðu lengur áfram í ljósi eindreginna óska um að hæstv. utanríkisráðherra komi til umræðunnar. Hann er á fundaflakki með flokksmönnum sínum að sagt er án þess að vera með fjarvist frá Alþingi. Mér finnst ekki ósanngjarnt að tekið sé eitthvert tillit til okkar hinna sem höfum þó verið að rækja okkar þingskyldur og verið á staðnum. Ég er líklega annar maður á mælendaskrá og mér finnst ósanngjarnt að ég þurfi að nota ræðu mína númer tvö áður en (Forseti hringir.) hæstv. utanríkisráðherra kemur til umræðunnar þannig að ég geti spurt hann í þeirri ræðu, tíu mínútna ræðu. Ef ég verð að halda hana að honum fjarstöddum er verið að takmarka rétt minn (Forseti hringir.) til þess að eiga orðastað við ráðherrann nær loksins hann kemur.