145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:35]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Það er forkastanlegt að við skulum vera hér fyrir nálega tómum þingsal að ræða þetta mál núna þegar klukkan er langt gengin í sjö. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór ágætlega yfir það fyrr í dag að hæstv. ráðherra hefði verið í lófa lagið að koma hér til fundar á milli þeirra tveggja funda sem hann er bókaður á hjá Framsóknarflokknum hefði hann haft einhvern áhuga á því að taka þátt í umræðunni, eiga við okkur orðastað og svara spurningum þingmanna. Hæstv. ráðherra kýs greinileg að forgangsraða tíma sínum með allt öðrum hætti. Ég vil því taka undir það að mér finnst algjörlega forkastanlegt að við hv. þingmenn séum látin eyða ræðutíma okkar í að tala út í tómið þar sem (Forseti hringir.) ráðherrann er ekki hérna. Þess vegna á að sjálfsögðu að fresta fundi nú þegar og (Forseti hringir.) hefði átt að vera búið að gera fyrir allnokkru síðan í dag.