145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:36]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er akkúrat þetta atriði sem er búið að margtala um í allan dag, furðuleg fjarvera hæstv. ráðherra frá þessu máli. Eins og ég hef sagt þá má í raun skilja vel að hann vilji ekkert vera hér og hlusta á þessi andmæli eða þurfa að standa fyrir svörum fyrir þetta alvonda mál, eitt versta mál sem ég held að hafi komið til þingsins. Svör hæstv. ráðherra við spurningu starfsmanna Þróunarsamvinnustofnunar Íslands segja allt sem segja þarf eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur margtekið fram um það hvernig svarað var í nefndinni.

Ég tek líka undir það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði um áðan. Hann er þar næstur á mælendaskrá og hefur tíu mínútur og vill leggja spurningar fyrir ráðherrann en ráðherrann er ekki til svara. Hv. þingmaður þarf þá að eyða þessum tíu mínútum sínum við að tala um þetta árans mál, ráðherrann svarar ekki (Forseti hringir.) og eftir það er ræðutíminn fimm mínútur. Það er þinginu ekki samboðið, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, að utanríkisráðherra skuli hunsa þingið svona eins og hann gerir. Ég tek (Forseti hringir.) undir það að þessu sinni þótt ég geri það sjaldan, virðulegi forseti, að ég held að nú sé komið að lokum þessa dags og það besta sem gert væri núna væri (Forseti hringir.) að taka málið af dagskrá og slíta fundi.