145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:49]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, formaður þingflokks Framsóknarflokksins rakti feril málsins stofnanalega og sagði að við skyldum bíða þess að greidd yrðu atkvæði um þetta mál, þá kæmi fram raunverulegur vilji manna. Ætli það? Það er nú það sem ég efast um. Þar kemur að hrossakaupunum sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa gert sín í milli, annars vegar um að veita brautargengi óskabarni Sjálfstæðisflokksins, frumvarpi um opinber fjármál (Gripið fram í.) sem er þyrnir í auga — ég styð það ekki, alls ekki, — margra framsóknarþingmanna, það veit ég, og hins vegar frumvarpi um Þróunarsamvinnustofnun sem mörgum sjálfstæðismönnum er þyrnir í auga, þeir styðja ekki, sumir andvígir. En ég óttast að við atkvæðagreiðsluna (Forseti hringir.) komi hinn raunverulegi vilji þingmanna ekki í ljós. Og við erum að kalla eftir því (Forseti hringir.) að hann komi í ljós við umræðu um málið.