145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:09]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er skemmtileg hugarflugsæfing sem hv. þm. Ásta Guðrún Helgadóttir setur mig hér í að reyna að finna jákvæðan flöt á máli sem ég er búin að eyða hálfri klukkustund í, í ræðu í dag, að tala um gallana á, auk ótalinna andsvara og ýmsar umræður um fundarstjórn forseta.

Það er hins vegar alveg hárrétt að það er hlutverk okkar þingmanna að kafa ofan í málin og reyna að skoða þau með opnum huga og frá öllum hliðum. Ég tel mig hafa gert það í fullri einlægni og hef eytt drjúgt löngum tíma í að lesa frumvarpið sjálft, umsagnir sem um það hafa borist, nefndarálit meiri hluta hv. utanríkismálanefndar og taka svo þátt í vinnu við að skrifa nefndarálit minni hluta hv. utanríkismálanefndar. Ég hef því eytt talsverðri starfsorku hér, bæði í fyrravetur og á þessu hausti, í þetta mál.

Og nei. Ég finn bara ekkert til þess að mæla þessu máli bót. Það er engin hagræðing í því. Fagþekking mun glatast með því. Gegnsæi í málaflokknum minnkar. Við vitum að von er á jafningjarýnisskýrslu frá DAC á næstunni og við getum ekkert nýtt okkur þær upplýsingar sem munu koma þar fram. Hún verður í raun algjörlega ónauðsynleg vegna þess að það verður búið að kúvenda málaflokknum.

Nei, því miður. Ég finn bara allt þessu máli til foráttu.