145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:11]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Það hlýtur að vekja upp spurningar ef við getum ekki fundið einhverja jákvæða hlið á þessu máli.

Nú hafa hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans komið og sagt að þetta sé gott mál þó að fólk sem þekkir betur til segi að þetta sé slæmt mál. Það fólk sem búið er að setja sig virkilega vel inn í málin sér sérstaklega galla á því.

Mér sýnist ekki að þetta snúist endilega um þróunarsamvinnu sem fag eða sem pólitískan hlut í kerfinu okkar, heldur snýst þetta um það hvernig við deilum með okkur verkum innan þings og utan og hvernig við dreifum valdinu í samfélaginu.

Mér þykir því mjög athyglisvert að sjá og heyra að hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir finni málinu allt til foráttu. Mér þykir það mjög alvarlegt og mér þykir eiginlega alvarlegra og mig langar að athuga hvort hv. þingmaður taki ekki undir með mér þegar ég segi að það væri betra ef fólk sem þykir þetta mál prýðisgott gæti komið og spurt af hverju okkur þyki þetta slæmt. Eða þá komið og rökstutt sitt mál, af hverju þetta er gott. Við höfum heyrt að þetta væri gott mál, þetta sé fínt mál. Síðan höfum við líka heyrt að þetta sé slæmt mál.

Hafandi lesið greinargerðina með frumvarpinu, hafandi lesið nefndarálitin tvö þá er ég bara sammála hv. þingmanni um að þetta sé arfaslakt mál. Efnislega séð snýst þetta ekki um þróunarsamvinnu. Þetta snýst um valddreifingu og valdþjöppun, gamla Ísland og nýja Ísland, og þetta er spurning um það hvernig við viljum halda um taumana þegar við erum að stjórna ríkishestinum.

Mig langar til að spyrja: Hvert er álit (Forseti hringir.) hv. þingmanns þegar kemur að því hvernig valddreifingu skuli háttað í samfélaginu?