145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:19]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú verð ég að viðurkenna það að vegna frekar takmarkaðrar þingreynslu minnar, þetta er annar veturinn minn sem aðalmaður á þingi, þá hef ég ekkert gríðarlega mikla reynslu af því hvað tíðkast í starfi nefnda og hef því kannski svolítið lítið til að bera saman við í þeim efnum.

En að því sögðu þá vil ég engu að síður segja að já, mér fannst vera lagt mikið kapp á það að klára málið hratt með vísan til þess að málið hefði fengið mikla og góða umfjöllun í hv. utanríkismálanefnd á síðasta þingi. Ég er ekki í stöðu til að andmæla því. Ég átti hins vegar ekki sæti í nefndinni þá sem aðalmaður, datt inn á nokkra fundi sem varamaður. Ég hefði persónulega gjarnan viljað fá fleiri fundi og hefði getað kafað dýpra ofan í þetta mál.

Ég verð að gera þá játningu að ég kem reynslunni ríkari út úr þessu starfi og mun efalaust bera mig öðruvísi að við nefndarstörfin því mér finnst þetta hafa verið svolítil eldskírn í því hvernig það er að sitja og vinna í nefnd þegar gríðarlega ólík sjónarmið eru uppi. En svo lengi lærir sem lifir, vonandi, og ég ber enn þá von í brjósti að við getum lent þessu máli farsællega. Ég vil trúa því.