145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:21]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta svar hv. þingmanns við þeirri spurningu sem ég lagði fram er ansi athyglisvert fyrir Alþingi að hugleiða. Hv. þingmaður er ekki búin að sitja mjög lengi á Alþingi, kom inn sem varamaður fyrir einu eða tveimur þingum síðan, en lýsir hér upplifun sinni í utanríkismálanefnd, hvernig þarna var unnið með þetta mál.

Ég vil segja fyrir mitt leyti, með mína þingreynslu, að ég hef verið formaður nefndar og hugsa nú til þess þegar á síðasta kjörtímabili í hv. atvinnuveganefnd komu endalausar beiðnir frá minni hlutanum um gestakomur út af máli tengdu fiskveiðistjórn og veiðileyfagjaldi. Alltaf urðum við við þeim beiðnum. Það voru að vísu stundum sett dálítið ströng tímamörk á það hvernig bæði þingmenn og gestir höguðu sér og allt í lagi með það. Þetta gekk ágætlega fyrir sig.

Mér finnst það sem hér er lýst og ég hef gert að umtalsefni með því að lesa fundargerðir og fara yfir dagsetningarnar alveg með eindæmum. Mér er alveg sama og það skiptir ekki máli þó að málið hafi verið til umfjöllunar á síðasta þingi. Hér hefur komið fram að þrír nýir þingmenn tóku sæti í nefndinni, þar á meðal formaður nefndarinnar, gott ef sá hv. þingmaður var ekki að hefja í fyrsta skipti nefndarstörf á Alþingi, ef ég man rétt. Þá hefði mér fundist það betra og faglegra að gera þetta öðruvísi en eins og ég segi rann umsagnarfrestur út 14. október, málið er tekið fyrir 15. október og varaformaðurinn boðar það að já, það sé allt í lagi að gestirnir komi en málið verði samt tekið út daginn eftir. (Forseti hringir.) Alveg sama hvað gestirnir segja, alveg sama hvað hefði komið fram í umræðum þingmanna og spurningum og svörum gestanna og hvort eitthvað þyrfti að fara betur yfir. (Forseti hringir.)Ég nefni sem dæmi að mér sýnist og ég get ekki fundið það í fundargerðum að fulltrúar Alþýðusambands Íslands sem gera miklar athugasemdir við frumvarpið (Forseti hringir.) hafi fengið að koma á fund nefndarinnar.