145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:31]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega algjörlega forkastanlegt að hæstv. ráðherra sjái sér ekki fært að vera hérna. Ég sé ekki betur, og mér þykir leitt að heyra af hv. samstarfsmönnum mínum, að svona vinnubrögð hafi verið stunduð, að mál séu bara rifin úr nefnd sisvona, eða að því er virðist, með eins litlum fyrirvara og hægt er. Svo ekki sé minnst á það að hæstv. utanríkisráðherra sjái sér ekki fært að vera hérna. Það minnir mig helst á ljóðið eftir Valdimar Hólm Hallstað, með leyfi forseta:

Þig sem í fjarlægð fjöllin bak við dvelur

og fagrar vonir tengdir líf mitt við,

minn hugur þráir, hjartað ákaft saknar,

er horfnum stundum ljúfum dvel ég hjá.

Heyrirðu ei, þig hjartað kallar á?

Heyrirðu ei storm er kveðju mína ber?

Þú fagra minning eftir skildir eina,

sem aldrei gleymist meðan lífs ég er.

(ÖS: Syngja það, syngja það.)

Það væri gott ef hæstv. ráðherra mundi sjá sér fært að mæta hérna svo við gætum átt góðar minningar saman um þetta mál.