145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:37]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég held það liggi fyrir að þessi fundur sé á enda runninn. Mig langar að beina þeirri ráðgjöf til ríkisstjórnarflokkanna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, að nota nú tímann vel, föstudag, laugardag og sunnudag, áður en þingið kemur aftur saman, til þess að horfast í augu við að hér er allt í steik. Samskipti Alþingis og framkvæmdarvaldsins eru í uppnámi. Hér liggur fyrir að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, virðist hafa yfirtekið dagskrárvald og stjórn á starfsáætlun þingsins. Þetta þarf að ræða. Kannski þarf að fara yfir stjórnskipan landsins. Kannski þurfa bara forustumenn stjórnarflokkanna að setjast yfir það hver stjórnskipan landsins er, fara yfir þingsköp, fara yfir kjarnann í íslensku samfélagi, átta sig á því að þessi vinnubrögð og þessi nálgun og þessi hegðun gagnvart Alþingi gengur ekki upp.

Ég hvet hv. þm. Ásmund Einar Daðason, og aðra þá (Forseti hringir.) sem eru hér unnendur lýðræðis og góðra samskipta, að halda góða samráðsfundi yfir helgina og fara yfir þessi grundvallaratriði.