145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

rekstur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

[15:06]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er alveg rétt að þetta hefur töluvert verið í fréttum undanfarið en engu að síður er enn lengra síðan það fór í loftið. Ég kynnti hér á árinu 2013 áætlun um betri heilbrigðisþjónustu fyrir árin 2013–2017 þar sem meðal annars var rætt um með hvaða hætti við ætluðum að vinna að endurbótum á heilsugæslunni í landinu, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.

Vissulega hefur sú áætlun gengið hægar en efni stóðu til og vilji manna stóð til. Engu að síður var þar gert ráð fyrir því að fyrirkomulagi á greiðslum til heilsugæslunnar yrði breytt ásamt því að við mundum endurskoða og gera kröfulýsingu, draga upp í skrifuðu formi þær kröfur sem gerðar væru um þjónustu heilsugæslunnar í landinu.

Svo að ég svari því til þá er heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu að reka beint 15 heilsugæslustöðvar í dag. Það eru tvær í einkarekstri og hafa verið í nokkurn tíma, Lágmúlastöðin og stöðin í Salahverfi. Báðar ganga mjög vel, sérstaklega þó Salastöðin í Kópavogi.

Það stendur ekki til að bjóða út rekstur þessara 15 stöðva, svo að það sé sagt. Það stendur hins vegar til að reyna að búa til það umhverfi að geta fjölgað heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu og væntanlega verði auglýst eftir rekstraraðilum að þeim stöðvum sem við gætum séð fyrir okkur að gætu orðið til.

En verkið er ekki enn komið á þann veg því að kröfulýsingunni er enn ekki lokið og við erum ekki komin til enda við það að búa til fjármögnunarlíkanið fyrir rekstur heilsugæslukerfisins. Ég mun væntanlega koma örlítið að því í síðara andsvari mínu.