145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

kjör öryrkja.

[15:18]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Um síðustu helgi hélt Framsóknarflokkurinn miðstjórnarfund sinn í Vogum á Vatnsleysuströnd. Þar hélt forsætisráðherra mjög þróttmikla og góða og jákvæða ræðu eins og ræður hans eru oftast. Þar tíundaði hann að hér væri bullandi hagvöxtur og fjárfesting hefði aukist víða um land, verðbólga væri stöðugri og minni en nokkurn tíma áður og kjarabætur í formi kaupmáttaraukningar væru nú meiri en áður og meiri en áður hefðu sést á svo stuttum tíma.

Þetta var virkilega góð ræða hjá hæstv. forsætisráðherra, bjartsýn og góð. En á sama tíma sat fulltrúi Framsóknarflokksins málþing Öryrkjabandalags Íslands sem það hélt á Grand Hótel. Ræðurnar og erindin sem þar voru flutt voru ekki alveg jafn falleg. Ég verð hreinlega að segja að ég var hálfsleginn yfir þeim ræðum og þeim lýsingum sem fram komu á því þingi. Mig langar að lesa, með leyfi forseta, ályktun sem fundurinn sendi frá sér:

„Ágæti þingmaður.

Viltu skapa samfélaga fyrir alla þar sem lífeyrisþegar og börn þeirra hafa tækifæri til virkrar samfélagsþátttöku en ekki að þeim séu settar þær kjaraskorður sem þau nú búa við? Þú hefur valdið til að breyta.

Opinn fundur Öryrkjabandalagsins, Mannsæmandi lífskjör fyrir alla, sem haldinn er á Grand Hótel laugardaginn 21. nóvember 2015, skorar á þingmenn að hafa áhrif á fjárlagagerð ríkisins fyrir árið 2016 með eftirfarandi hætti:

Lífeyrir almannatrygginga hækki afturvirkt um sömu krónutölu og lægstu laun hækkuðu 1. maí sl., sem er 31 þús. kr. Lífeyrir almannatrygginga hækki um 15 þús. kr. frá 1. maí 2016, sem er samhliða lækkun lágmarkslauna. Einnig er farið fram á að krónu á móti krónu skerðing sérstakrar framleiðsluuppbótar verði afnumin hið fyrsta. Þingmenn, gerið okkur kleift að vera með mannsæmandi framfærslu.“

Mig langar til að beina þeirri fyrirspurn til forsætisráðherra — í ljósi ræðu hans og þeirrar ótrúlega góðu stöðu sem hefur skapast hér á síðustu tveimur árum, frá því að hann tók við og hæstv. ríkisstjórn hans — hvort ekki sé borð fyrir báru núna til að koma til móts við þessa ályktun frá Öryrkjabandalaginu og sjá til að fólk geti lifað mannsæmandi lífi á Íslandi.